Klisjan um að sannleikurinn sé fyrstur til að falla í stríði mætti vel umorða eitthvað á þessa leið: málnotkun er fyrst til að falla í stríði. Það er mjög athyglisvert að fylgjast með orðalagi og orðnotkun í fréttaflutningi af innrásinni í Írak.

Fjölmiðlar flytja nú fréttir af því að vegna tundurdufla geti birgðaflutningaskipið breska hersins, Sir Lancelot, ekki lagst að bryggju í Umm Kasar. Því hafi hjálparstarf (e. humanitarian aid) bandamanna tafist. Stjórvöld Íraks eru ásökuðum um að reyna að koma í veg fyrir þetta hjálparstarf, og það sanni að þau beri ekki hag íbúa landsins fyrir brjósti. Samt fluttu sömu fjölmiðlar fréttir af þvi að stjórnvöldin hefðu dreift 5 mánaða matarbirgðum til landsmanna fyrir rúmlega viku og World Food Program telur að matarskorts verði ekki vart í Írak að öllu óbreyttu í nokkrar vikur (skv. fréttum BBC).

En er bandaríkjaher þá virkilega hjálparstofnun? Innrásaherir hafa oft keypt velvild innfæddra með mat eða öðrum gjöfum. Þó það sé gert með gott eitt í huga þá er ekki rétt að nefna það hjálparstarf. Meginregla hjálparstofnanna er hlutleysið. Þær aðstoða alla aðila deilna jafnt og passa iðulega á að sýnast ekki tengjast deilendum.

Ps. bandamenn hafa tilkynnt að höfnin í Umm Kasar verði einnig notuð fyrir birgðaflutninga herjanna (þ.e. mat, skotfæri, eldsneyti …).



2 ummæli við „Er bandaríkjaher hjálparstofnun?“

  1. Pétur Björgvin ritaði:

    Ég neita því ekki að stundum finnst mér sem hjálparstarf sé skilgreint út frá því sem þeir sem að hjálparstarfinu standa útskýra sem hjálp, en ekki endilega út frá því sem fólkið sem hjálpin er ætluð upplifir sem hjálp. Reyndar held ég að þetta sé vandinn í hnotskurn. Sjálfur hef ég upplifað það á erfiðum stundum í lífi mínu að hjálpin sem vinurinn rétti mér var mér sem rothögg. Einfaldlega af því að þar fór ekki saman það sem hann hélt að gæti hjálpað mér og það sem ég þráði og skilgreindi á þeim tíma sem hjálp.

  2. Ólöf I. Davíðsdóttir ritaði:

    Það er líka svolítið öfugsnúið þegar eyðandinn kemur færandi hendi og kallar það hjálparstarf. Honum væri nær að hafa látið hlutina upphaflega í friði. Í besta falli væri hægt að kalla það tjónabætur.

    www.simnet.is/snotin/snittur.html