Heimurinn í þrívídd

10. október 2003

Fyrir nokkrum árum rak ég ásamt tveimur félögum fyrirtækið Onus sf. Við bjuggum til þrívíðar tölvuteikningar, aðallega fyrir verkfræði- og arkitektastofur. En ýmislegt annað áhugavert kom inn á borð til okkar. Okkar helsta tól var 3D Studio MAX frá AutoDesk (held við höfum verið fyrsta íslenska fyrirtækið til að kaupa það forrit og nota löglega). Óteljandi klukkustundir fóru í að teikna hina ýmsu hluti með víragrindum og bíða svo eftir að tölvurnar „framkölluðu“ útkomuna.

Eftir að hafa varið hundruðum klukkustunda í að reyna að teikna sem raunverulegastan heim inni í tölvu þá fór maður að horfa á hinn raunverulega heim með allt öðrum augum. Það skrítna var að maður tók að sjá hluti í kringum mann sem virtust ekki ekta, hluti sem manni fannst eitthvað vera að og hefði maður verið að horfa á þrívíddarteikningu þá hefði maður sagt hana illa gerða. Þetta sjónarhorn á heiminn býr enn í mér í dag og öðru hverju sé ég eitthvað sem veldur því að ég hugsa með mér „ansi er þetta óraunverulegt“.

Hér fylgja nokkrar myndir af fyrirhuguðu starfsmannamötuneyti Hótels Loftleiða sem ég gerði í byrjun sumars 1996 eftir plottuðum línuteikningum frá verkfræðistofunni Klöpp hf.

 

 

 

 

 

 

 3 ummæli við „Heimurinn í þrívídd“

  1. Þorkell ritaði:

    Skemmtileg pæling. Kvikmyndagerðamenn kannast við þessa tilfinningu, en það þarf oft að breyta raunveruleikanum til að gera hann “raunverulegri”. Ég á einnig brúðkaupsmynd af okkur hjónunum þar sem bakgrunnurinn lítur út eins og hann sé veggfóður. Samt er myndin tekin upp á fjalli og allt baksvið eins ekta og hægt er að hugsa sér. :-)

  2. Þorkell ritaði:

    P.s. flottar myndir. Vissi ekki að þú værir svona klár!!!

  3. Skúli ritaði:

    Þetta verður örugglega algengt heilkenni hjá komandi kynslóðum. Að því kemur að grafíkin í veruleikanum hættir að standa undir væntingum. ;)