Ummæla-spamm

21. október 2003

Margir bloggarar sem nota MovableType-kerfið hafa orðið fyrir barðinu á ummæla-spammi í sérstaklega auknu mæli seinustu eina til tvær vikur. Tilgangurinn með spamminu er aðallega að vekja athygli á einhverjum ákveðnum vef, þó stundum sé eingöngu um skemmdarfíkn að ræða. Helst eru þetta klámsíður sem eru reyna að koma sér ofarlega á lista hjá leitarvélum og yfirlitsvefjum svo sem DayPop.com.

Six Apart hjónin fjölluðu sérstaklega um málið um daginn og nefndu nokkrar leiðir til að bregðast við plágunni. Besta lausnin fyrir MT-blogg virðist vera MT-Blacklist - sem er í raun ekki svartur listi heldur sía sem þekkir algengt spamm út frá bannorðalista.

Þó við hér á þessum vef þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu eins og er en þó er gott fyrir mig að fara að huga að slíkum vörnum. Ágætt samt að taka það fram hér að allar upplýsingar um innsend ummæli eru færðar í annál á öðrum netþjón jafnóðum (og í raun um flest annað sem gerist á virkni vefsins).

Ummælareglur

Bloggarar ættu einnig að vera meðvitaðir um hvað er að gerast í ummælakerfum þeirra og vera duglegir að yfirfara innsend ummæli. Þeir ættu ekki að hika við að „ritskoða“ ummæli að mínu mati enda er verið að birta þau á þeirra vef og á þeirra ábyrgð. Nokkur atriði sem mætti hafa í huga:

 • Eyða ummælum sem snerta ekki umræðuna. Ágæt venja að gefa það samt til kynna.
 • Eyða út tenglum á vefi sem hafa ekkert með umræðuna að gera - einnig athuga hvort uppgefin vefur sé heimasíða eða blogg þess sem skrifar ummælin eða hvort bara sé verið að auglýsa einhvern annan vef.
 • Loka fyrir frekari ummæli við færslu þegar umræðunni er greinilega lokið eða hún farin að leiðast út í einhverja aðra sálma.
 • Eyða út eða strika yfir ummæli sem innihalda blótsyrði eða eru persónulegar árásir.
 • Benda þeim sem leggja það á vana sinn að skrifa mjög löng og/eða mörg ummæli í röð að þeim væri nær að skrifa um málið á sínu eigin bloggi og setja svo tilvísun á þá færslu í ummælin.
 • Ýmsir yrði líklega þakklátir ef augljósar innsláttarvillur væru lagfærðar í leiðinni.

Sjá td. nánar hjá Mark Pilgrim og Sam Ruby. Svo og auðvitað svipaða færslu hjá Árna [uppfært kl. 12.32].

Ps. Reynar er ein hugmyndin tengd MT-Blacklist sérstaklega áhugaverð út frá tungutækninni. Hægt væri að útbúa síu sem skæri úr um hvort ummælin væru tengd efni færslunnar (út frá flokkun hennar og texta) og tilkynnti líklegt spamm til eiganda bloggsins.

Pps. MT-Blocklist virðist reyndar leita bara að óleyfilegum vefslóðum. Svo nafnið er við hæfi. Von á nýrri útgáfu næsta mán. (27/10) sem á að vera mikið breytt.3 ummæli við „Ummæla-spamm“

 1. Árni Svanur ritaði:

  Við ræddum ummælasiðferði á annálunum fyrr á þessu ári.

 2. Örvar ritaði:

  Grein um málið í Wired í gær: Spammers Clog Up the Blogs

 3. Árni Svanur ritaði:

  Yoz Graham lumar á sjö hollráðum fyrir baráttuna gegn ummælaspammi.