Í tilefni dagsins langar mig að segja eina sögu sem er mér ofarlega í huga þegar launakjör kynjana eru rædd.

Þegar ég var í framhaldsskóla þá vann ég hjá sama fyrirtæki og ein bekkjarsystir mín. Hún hafði unnið lengur en ég hjá fyrirtækinu. En hinsvegar hafði ég tekið að mér fleiri vaktir. Þannig að ef unnir tímar væru taldir saman þá höfðum við líklega verið búin að vinna álíka lengi hjá fyrirtækinu. Við sinntum sama starfinu og hittumst því sjaldan í vinnunni. Einhverju sinni þó við vaktaskipti þegar lítið var að gera fórum við að ræða saman og fljótlega barst talið að vinnunni og kjaramálum - en hún var að hugsa um að hætta. Í ljós kom að hún hafði nokkuð lægri laun en ég. Þetta kom mér á óvart enda ekkert efni til þess sem ég vissi um. Ég spurði hana því hvað eigendur fyrirtækisins segðu þegar þeir neituðu henni um launahækkun. En vitið þið hvað? Á meðan ég fór upp á skrifstofu á circa 3 mánaða fresti og bað um launahækkun (fékk hana þó ekki endilega alltaf) þá hafði hún aldrei gert það!

Ps. Ég geri mér grein fyrir að þetta er auðvitað bara eitt lítið dæmi sem þarf ekkert að endurspegla einhverja reglu í þessum málum.3 ummæli við „„Konur hvattar til að biðja um launahækkun““

 1. eva ritaði:

  Þetta er mjög dæmigert. Konur og karlar í kerlingastörfum (t.d. kennslu) virðast gera minni kröfur til launa og aðbúnaðar en karlar gera almennt.

  Hinsvegar er ég ekki viss um að það sé réttlátt að fólk fái hærri laun fyrir það eitt að sýna færni í þeirri list að setja fram kröfur og tíunda eigið ágæti, þegar starfið tengist sölumennsku og sannfæringarkrafti ekki á nokkurn hátt.

  Ég er ekki hrifin af því sjálf að setja konur alltaf í eitthvert fórnarlambshlutverk en við getum líka velt því fyrir okkur hvers vegna konur séu ragari við að gera kröfur. Getur verið að þær alist ennþá upp við það viðhorf að hógværð og hófsemi fari stúlkum best og er hugsanlegt að þær fái oftar synjun hjá vinnuveitendum, jafnvel hjá bönkum og öðrum stofnunum þegar þær leita fyrirgreiðslu? Ég veit svosem ekkert um það en finnst áhugavert að finna orsakirnar fyrir þessum rolugangi kvenþjóðarinnar. Þetta er fjandinn hafi það ekki í genunum?

 2. Örvar ritaði:

  Starfið hafði ekkert með sölumennsku að gera, né líkamlegt atgerfi eða neitt sem gæti “skýrt” launamismun.

  Maður fær ekki alltaf endilega það sem maður á skilið og neyðist til að passa upp á það sjálfur. Ég vona að sem flestar konur fari fram á sín 14% í dag - aldrei að vita nema þær fái þau.

  Gaman væri líka að sérstök áhersla verði lögð á að lagfæra þennan mun í almennum kjarasamningum sem verða á næstunni.

 3. Árni Svanur ritaði:

  Sammála.