Skundað á Hugvísindaþing

27. október 2003

Málstofur á Hugvísindaþingi 2003 sem mig langar að hlýða á (sett hér inn svo ég muni frekar eftir að mæta):

Skrift og bókagerð á miðöldum (A. stofa II)

 • Guðvarður Már Gunnlaugsson: Blendingsskrift
 • Hallgrímur J. Ámundason: Stbfkbrlbskrkftpgdxlmbl: um villuletur í íslenskum handritum
 • Haraldur Bernharðsson: Afdrif kk-tákns Fyrstu málfræðiritgerðarinnar
 • Már Jónsson: Handritamælingar

Hjal: Vélræn íslensk talgreining (A. stofa VII)

 • Eiríkur Rögnvaldsson: Kynning verkefnisins „Hjals“
 • Geir Gunnarsson: Val orða og setninga
 • Jón Pétur Friðriksson: Hljóðritanir — tækni, úrvinnsla, vandamál
 • Björn Kristinsson: Hljóðritun framburðardæma í Hjali
 • Valdís Ólafsdóttir: Framburður Íslendinga í upphafi 21. aldar
 • Helga Waage: Hagnýting talgreiningar

En auðvitað þarf þetta að vera á sama tíma, kl. 15.30 föst. 31. okt. :(

Annars er margt annað athyglivert á þinginu - en ég kemst bara mögulega eftir hádegi á föstudaginn því er þessi upptalning takmörkuð við þann tíma.

http://www.hugvis.hi.is/saekja/Hugvis-dagskra.pdf

Enn ein veitan: index.cdf

27. október 2003

Ég bætti við enn einu veitusniðinu (feed) í kvöld. Snið kvöldsins er circa 6 ára gamalt (líklegast það elsta sem til er) og heitir Channel Definition Format (CDF). Var einn af nýju fídusunum í fjórðu útgáfu Internet Explorer. Ég á örugglega ennþá einhverstaðar Microsoft System Journal blaðið sem kynnti þetta skráarsnið fyrst. Skoðaði þetta í þaula á sínum tíma en fann engin raunveruleg not fyrir það.

Hins vegar gæti þetta snið hentað ágætlega fyrir bloggyfirlit. Það er fyrir þá sem nota Internet Explorer. Þegar veitan er sótt þá bætir hún sér við favorites gardínuna (og favorites hliðarslánna, Ctrl+I) og þar er hægt að skoða lista yfir nýjustu færslur bloggsins. Hér má sækja veituna mína: /orvar/index.cdf - allir bloggarar á Annál.is og Blogg.is geta einnig bætt index.cdf við sín url.

Lesa restina af færslunni »

26. október 2003

Ég var að fatta það að bloggarinn Salvör Gissurardóttir er höfundur bókar um gagnasafnskerfið dBASE III+ sem ég átti einu sinni (:> lítill heimur). Bað um þessa bók í afmælisgjöf á sínum tíma og fékk hana. Sýnir hvað ég var mikill nörd sem unglingur. En ekki lengur - nú kaupi ég mínar tölvubækur sjálfur :P

25. október 2003

Smábreytingar á bloggkerfinu þessa nóttina:

 • Tekið er á móti ávísunartilkynningum (trackback).
 • Breytti annálsskapalóninu, v. ávísunar og fletts á milli færslna.
 • Breytti vanillaskapalóninu á blogg.is, v. ávísunar (klára svo að uppfæra restina næstu daga).
 • Lagfærði einnig wml skapalónin aðeins - birtir titilslausar færslur í yfirliti.

Í tilefni dagsins langar mig að segja eina sögu sem er mér ofarlega í huga þegar launakjör kynjana eru rædd.

Þegar ég var í framhaldsskóla þá vann ég hjá sama fyrirtæki og ein bekkjarsystir mín. Hún hafði unnið lengur en ég hjá fyrirtækinu. En hinsvegar hafði ég tekið að mér fleiri vaktir. Þannig að ef unnir tímar væru taldir saman þá höfðum við líklega verið búin að vinna álíka lengi hjá fyrirtækinu. Við sinntum sama starfinu og hittumst því sjaldan í vinnunni. Einhverju sinni þó við vaktaskipti þegar lítið var að gera fórum við að ræða saman og fljótlega barst talið að vinnunni og kjaramálum - en hún var að hugsa um að hætta. Í ljós kom að hún hafði nokkuð lægri laun en ég. Þetta kom mér á óvart enda ekkert efni til þess sem ég vissi um. Ég spurði hana því hvað eigendur fyrirtækisins segðu þegar þeir neituðu henni um launahækkun. En vitið þið hvað? Á meðan ég fór upp á skrifstofu á circa 3 mánaða fresti og bað um launahækkun (fékk hana þó ekki endilega alltaf) þá hafði hún aldrei gert það!

Ps. Ég geri mér grein fyrir að þetta er auðvitað bara eitt lítið dæmi sem þarf ekkert að endurspegla einhverja reglu í þessum málum.

21. október 2003

Þar sem ég sit hér og hlusta á skjaldsvein Bill Gates segja mér hvernig má spara með Office 2003 (bíð eftir því að þeir fari að lista nýju fídusana) þá dettur mér í hug hvort ekki megi þýða webcast einfaldlega sem vefvarp (sbr. sjónvarp). Vefvarpið Netvarpið má sjá hér.

Ég náði nánast ekkert að fylgjast með Bill karlinum því síminn hringdi án afláts. Þ.á.m. langt samtal við svía um innviði bloggkerfis og gagnagrunnstengingu ASP :S

Ps. vefvarp er reyndar ekkert sérstaklega þjált orð.

Enn má hafa not af Leit.is

21. október 2003

Tók eftir því að Leit.is er loksins búið að laga galla sem ég var að rausa um fyrir löngu. Gott hjá þeim - þá er bara næst að lagfæra þennan galla.

Langt er reyndar síðan ég hætti næstum alfarið að nota Leit.is - og ég verð steinhissa þegar ég rekst á fólk sem notar þá leitarvél en veit svo ekki hvað Google.com er. Hinsvegar má hafa enn hafa smá not af Leit.is - þ.e. til að athuga hvernig maður á að stafsetja orð. Segjum t.d. að þú vitir ekki hvort orðið leit sé með ypsiloni eða ekki - þá er hægt að leita að "leit leyt" og sjá hvort orðið er algengara:

Síður fundust: leit (60867) leyt (16)

Þetta kemur þó ekki alfarið í stað almennrar stafsetningarkunnáttu því aðferðin virkar bara svo fremi sem meirihlutinn kann enn stafsetningu. ;)

21. október 2003

Ég var að frétta það að meiningin væri að gera notendum vefkerfis Háskólans kleift að birta yfirlit fyrir valdar rss-veitur inni á heimasvæðinu sínu innan kerfisins. Þannig að um leið og maður athugar dagatalið sig og les skilaboð frá kennurum þá geti maður skimað yfir nýjust fréttirnar. Aðeins verður hægt að velja á milli rss-veita sem tengjast starfi Háskólans.

Ummæla-spamm

21. október 2003

Margir bloggarar sem nota MovableType-kerfið hafa orðið fyrir barðinu á ummæla-spammi í sérstaklega auknu mæli seinustu eina til tvær vikur. Tilgangurinn með spamminu er aðallega að vekja athygli á einhverjum ákveðnum vef, þó stundum sé eingöngu um skemmdarfíkn að ræða. Helst eru þetta klámsíður sem eru reyna að koma sér ofarlega á lista hjá leitarvélum og yfirlitsvefjum svo sem DayPop.com.

Six Apart hjónin fjölluðu sérstaklega um málið um daginn og nefndu nokkrar leiðir til að bregðast við plágunni. Besta lausnin fyrir MT-blogg virðist vera MT-Blacklist - sem er í raun ekki svartur listi heldur sía sem þekkir algengt spamm út frá bannorðalista.

Lesa restina af færslunni »

OZ?

19. október 2003

Hvað er að frétta af OZ? Allir sem ég kannaðist við og unnu þar eru löngu farnir eitthvað annað. Fyrirtækið var að flytja til Kanada seinast þegar maður heyrði einhverjar fréttir af því … og svo hvað? Nýjasta fréttin á vefnum þeirra er frá byrjun mars á þessu ári.

Gátu þeir ekki skilgreint sig upp á nýtt eða var kannski engin nýbóla til að grípa á lofti? Það hafa þó nokkur önnur fyrirtæki sprottið út úr OZ sem eru enn með lífsmarki.

Ps. fyndið, innan við viku eftir að ég skrifaði þessa færslu þá var reunion hjá fyrrum starfsmönnum OZ.