31. desember 2003

Örvar hefur flutt sig (alfarið) á blogg.is/orvar og hættir nú annall.is/orvar að uppfærast.

24. desember 2003

Það er gaman þegar eitthvað sem maður hefur sjálfur gert kemur manni á óvart. Áðan fór ég einn hring á vefnum; kíkkaði á vefina sem ég les reglulega og einnig vefina sem ég sé um. Þar á meðal vef Hugvísindastofnunar H. Í. - í hausi þess vefs er prentuð dagsetning. Þegar ég setti upp vefinn á sínum tíma (fyrir nokkrum árum) þá bjó ég þannig um hnútana að á sérstökum dögum er prentað heiti dagsins. Því blasti við mér í dag: Aðfangadagur jóla, 2003. Þar sem ég var alveg búinn að gleyma þessu þá kom þetta mér skemmtilega á óvart.

http://hugvis.hi.is

Gaddafi hershöfðingi tilkynnti í kvöld að Líbýa ætli að eyða og hætta þróun gjöreyðingarvopna. Þessi ákvörðun kemur í framhaldi af samningarviðræðum við Breta og Bandaríkjamenn sem hófust fyrir 9 mánuðum. Frumkvæðið kom þó frá Líbýumönnum í framhaldi af viðræðum vegna Lockerbý-slyssins. Líbýa á mikið af efnavopnum og var nærri því að útbúa kjarnorkuvopn en hefur áhuga á að verða hluti af alþjóðasamfélaginu og líklega hefur innrásin í Írak haft áhrif.

Ps. frétt um málið er nú komin á Sky News … Blair með fréttamannafund … Bush með fréttamannafund … frétt á Reuters … tilkynning komin á CNN … loksins frétt á Mbl.is (undarlegt að Ríó Ferdinand þykir þó merkilegri frétt).

Af holum

15. desember 2003

Í gærmorgun var fundur Saddams aðalfréttin. Talsmenn bandaríkjamanna sögðu að hann hefði fundist falinn í spiderhole. Slíkar holur notuðu Viet-Kongliðar til að liggja í launsátri fyrir bandaríkjamönnum í Vietnamstríðinu (sjá mynd). En fyrirbærið er auðvitað nefnt eftir holum sumra tegunda köngulóa. Breskir fréttamenn á Sky News sjónvarpsstöðinni töluðu hins vegar um að hann hefði fundist í foxhole eða greni. Það orð má einnig finna í máli hermanna og er þá átt við gryfju sem notuð er sem skjól en er ekki beinlínis ætluð til að fela sig í.

Í fréttatíma Bylgjunnar (og Stöðvar 2) í framhaldi af blaðamannafundinum gær var fylgsni Saddams nefnt jarðhola (gamalt og svo sem ágætt orð) og í fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins í dag er það kallað neðanjarðarhola. Hefði ekki einfaldlega mátt tala um holu, eða hvað?

Jólaósk Bush

14. desember 2003

U.S. forces capture a number of wanted Iraqis in Tikrit, possibly including former Iraqi leader Saddam Hussein, U.S. officials say. Identities still being confirmed. [CNN]

Myndband sýnt á blaðamannafundinum af læknisskoðun Saddams.

11. desember 2003

Davíð Oddson fór á kostum áðan þegar hann fullvissaði þingheim um að eftirlaunagreiðslur til hans yrðu ekki baggi á þjóðfélaginu. Menn þyrftu að hafa litlar áhyggjur af því þar eð hvorugur afa hans hefðu ekki náð sextugsaldri og faðir hans hafi andast 63 ára.

Ps. Davíð verður 56 ára í janúar.

Ég þurfti um daginn að setja saman reglulega segð til að greina rómverskar tölur í íslenskum 16. aldar textum. Hélt ég nú að þetta væru frekar óvenjulegt og fáir hefðu þurft að gera slíka hluti. En í ljós kom að finna mátti ýmsar lausnir með hjálp Google (hér er td. ein ágæt).

Svo virðist algengt að nota rómverskar tölur í sýnidæmum sem útskýra reglulegar segðir. Mark Pilgrim fer ýtarlega út í þetta í Dive Into Python bókinni sinni, Chapter 6 Unit testing (roman.py).

Herra Föt

5. desember 2003

Sá spjald í glugga verslunar í dag sem á stóð „Herra Föt". Hugsaðu með mér að þetta væri nú hálf asnalegt nafn á verslun - minnti dálítið á teiknimyndirnar um Smjattpattana Herramennina (Voru það ekki þeir sem hétu Hr. þetta og Hr. hitt.). Svo fattaði ég að þetta átti bara að vera „Herraföt" - þ.e. til merkis um hvað verslunin seldi.

5. desember 2003

Þá er ég byrjaður að reka bíl að nýju. Það sprakk á einu dekkinu hjá mér í dag og reyndist það ónýtt. Nýtt dekk og umfelganir kostuðu 13þ. kr. takk fyrir.

Var með fyrirlestur í Gagnasafnsfræðinni í morgun - gekk ágætlega. Var hræddur um að ég hefði ekki nóg að tala um svo ég ákvað að fjalla um ákveðinn þátt til viðbótar sem ég hafði ekki hugsað mér að nefna. Svo reyndust þetta óþarfa áhyggjur hjá mér þar sem ég rann út á tíma, hefði getað talað helmingi lengur.

þegar ég lít yfir um hvaða efni námskeiðsbræður mínir völdu að tala um þá er það tvennt sem er einkennandi við val margra. Annarsvegar að velja eitthvað allt annað efni sem kemur gagnasafnsfræði lítið sem ekkert við og hinsvegar að velja eldgamla grein þá líklega í von um að efni hennar væri einfalt þar eð fræðin væru skammt á veg komin. Björn valdi gamla grein en áhugaverða þó - The Transaction Concept: Virtues And Limitations (PDF-skrá 1,16 mb.) eftir Jim Gray - kannski ég lesi hana seinna þegar lífið fer að róast hjá manni.

Ps. Kom við í Íbúðalánasjóði áðan. Þar er tölva í biðstofunni svo gestir geti skoðað vef stofnunarinnar. Gömul IBM pentíum vél. Þegar betur var að gáð þá var hún að keyra Suse Linux, KDE og Netscape 6. Sniðugur tölvukarl hjá Íbúðalánasjóði.