Ég var beðinn í ummælum við seinustu færslu mína að lesa yfir grein. Samviskusamlega gerði ég það og rakst á eina augljósa rangfærslu. Ég bendi hér með á hana og á ekki von á öðru en að höfundurinn, Óli Gneisti, leiðrétti greinina.

Það er enginn tilviljun að nasistar hófu ofsóknir sínar gegn gyðingum af alvöru á afmælisdegi Lúthers, hin alræmda Kristalsnótt var skipulögð til að heiðra minningu kirkjuföðursins. [Vantrú]

Að vísu étur Óli þetta upp eftir annarri vefsíðu svo sökin er ekki öll hjá honum. Hann hefði þó mátt staðfesta heimildirnar sínar.

Kristallnacht, the night of the burning of the synagogues in Germany was chosen in honor of Luther's birthday. [Christian Action for Israel]

Finna má þessa rangfærslu á nokkrum síðum á Vefnum sem allar virðast hafa það sameiginlegt að ganga út á trúleysi.

Ég mun nú stikla á stóra hvað varðar aðdraganda Kristallnacht og dæmi nú hver fyrir sig hvort dagsetning hafi verið tilvijun eða ekki.

 • Í mars 1938 þá ógilti Pólska stjórnin ríkisborgararétt mörgþúsunda pólskra gyðinga sem bjuggu erlendis. Gerði hún þetta til að reyna að stemma stigum við straumi flóttamanna, aðallega frá Austurríki en einnig þýskalandi.

 • 28. okt. - 17þ. gyðingar með pólskan ríkisborgararétt sem margir hverjir höfðu búið í Þýskalandi í áratugi voru handteknir, eignir þeirra gerðar upptækar og þeir fluttir yfir landamærin við Póland. Póland vildi hinsvegar ekki taka á móti þeim og urðu þeir því strandaglópar á einskismannslandi á landamærunum. Þeirra á meðal voru foreldrar og tvær systur Herschels Grynszpans.

  Sá sautján ára piltur bjó hjá frænda sínum í París þegar hann fær fréttir af þessu frá annarri systur sinni. Það til viðbótar við fregnirnar sem hann hafði haft af ofsóknunum nazista á gyðingum virðist hafa leitt hann til örþrifaráða.

 • 7. nóv. - Herschel óskar eftir viðtali við þýska sendiherrann í París, en er vísað til lægra setts manns í sendiráðinu, Ernst vom Rath. Herschel dregur upp byssu og skýtur Rath fimm sinnum.

  Meðan Rath lá dauðvona fer áróðursvél nazista í gang og í dagblöðum var þessi voðaatburður tengdur við morðið á svissneska nazistanum Davos frá Wilhelm af júgóslavneska gyðingnum David Frankfurter tveimur árum fyrr. Í framhaldi af því morði hafði verið ýjað að því að það tengdist einhverskonar gyðinglega samsæri. Bent var á árásina á Rath sem frekari sönnur um að slíkt samsæri væri í gangi.

  Strax 7. og 8. nóv. eru andgyðingleg mótmæli og árásir á gyðinga víðsvegar um Þýskaland.

 • 9. nóv. um kl. 16.00 deyr Rath.

  Þessi dagsetning var þýðingamikil fyrir nazista því þá minntust þeir félaga sinna sem höfðu látið lífið í Munich sama dag árið 1923 þegar Hitler gerði tilraun til byltingar. Allir helstu nazistarnir voru því vanir að koma saman á þessum degi.

  Hitler og Göbbel leggja á ráðin. Hitler vildi að múgæsingin sem beindist gegn gyðingum héldi áfram, yrði espuð upp og studd skipulega af nazistum, lögreglan mátti ekki að skipta sér af. Auk þess fyrirskipaði hann handtöku 20 til 30 þúsund gyðinga.

  Kl. 10 um kvöldið flytur Göbbel andgyðinglega ræðu fyrir flokksleiðtoga og SA-foringja. Endar hann ræðuna stuttu fyrir miðnætti með því að kalla eftir hefndarverkum gegn gyðingum. Áheyrendur hans flýta sér svo að koma boðum til undirmanna sinna og allsherjar aðgerðir til höfuðs gyðingum eru settar í gang. Þó virðist engin yfirumsjón hafa verið á aðgerðunum. Þessa nótt og þá næstu voru árásirnar hvað verstar. En mikið var um árásir næstu vikur.

Passað var upp á að ekki liti út sem um skipulagðar aðgerðir væri að ræða. Flokks- og SA-mönnum sem tóku þátt var fyrirskipað að klæðast ekki einkennisbúningum. Hitler virðist ekki hafa verið viss um hvort hann kæmist upp með þetta og vildi því geta kennt múginum um allt saman. Þess reyndist þó ekki þörf. Vera má að tengingin við afmælisdag Marteins Lúters hafi verið búin til eftirá en ég hef ekkert fundið sem styður það. Augljóst er þó hvaða heilvita manni að dagurinn var ekki valinn fyrirfram, og hvað þá með minningu Lúters í huga.

Meginheimild: Burleigh, Micheal. (2000). The Third Reich. A New History. Macmillan, London.

Ps. Ég ætla nú að biðjast undan því að lesa yfir fleiri greinar á vantrúarnetinu. Þessar tvær sem ég hef þegar lesið eru nóg, meira er ekki á mig leggjandi.25 ummæli við „Meint tengsl Lúters og Kristallnacht“

 1. Matti Á. ritaði:

  Ps. Ég ætla nú að biðjast undan því að lesa yfir fleiri greinar á vantrúarnetinu. Þessar tvær sem ég hef þegar lesið eru nóg, meira er ekki á mig leggjandi.

  Úff - málefnalegur eins og endranær.

  Það eru ótal greinar á Vantrú um ýmislegt milli himins og jarðar. Svona yfirlýsingar segja meira um þig en vefsíðuna Vantrú.

  Ekki ætla ég að fjalla um þessa leiðréttingu þína, ef hún er rétt er ég viss um að þú hlýtur þakkir fyrir - enda viljum við frekar hafa það sem rétt reynist.

  Aðrir mættu taka sér það til fyrirmyndar.

 2. Hafsteinn ritaði:

  Ég ætla að taka orð Matta bókstaflega, en ekki eins og ég held að þau séu sögð, af því að mér hefur virst Örvar afar málefnalegur í umræðum sínum almennt (þótt hann geti stundum verið dulítið stríðinn).

 3. Óli Gneisti ritaði:

  Ég hef þessar upplýsingar um Kristalsnóttina meðal annars eftir kristnum manni sem skrifar á kristnum vef, á þessari síðu: http://www.cdn-friends-icej.ca/antiholo/apology.html

  Þetta hefðirðu vitað ef þú hefðir í raun skoðað heimildirnar.

 4. Óli Gneisti ritaði:

  Ef þú ert ekki sannfærður um tengsl Lúthers og nasista þá geturðu kíkt á þessar myndir: http://www.vantru.net/2004/03/06/00.00/

  Það er ekki einsog að það sé skortur á heimildum um aðdáun nasista á Lúther.

  [Örvar: nokkur orð um myndirnar]

 5. Binni ritaði:

  „Það er ekki einsog að það sé skortur á heimildum um aðdáun nasista á Lúther.“

  En þetta virkar ekki í báðar áttir; engar heimildir eru til um aðdáun Lúters á nasistum.

 6. Hafsteinn ritaði:

  Ég fæ nú ekki séð hvaða máli það skiptir hverrar trúar höfundurinn er, annað hvort er þessi tenging rétt eða röng. Örvar vitnar í nýlegt sagnfræðirit um efnið. Þá túlkun þarf að hrekja með öðru en tilvísunum í það að aðrir höfundar séu kristnir eða að nasistar hafi nýtt sér Lúther í áróðri sínum.

 7. Óli Gneisti ritaði:

  Ég ætla að vona að það skipti einhverju að ég vitnaði í þetta í góðri trú um að þetta væri rétt, ég hafði séð þetta á nokkrum trúleysisvefsíðum og ákvað ekki að nota þetta fyrren ég hafði fundið þetta frá öðrum aðilum (í þessu tilfelli kristinni vefsíðu).

  Þetta skiptir líka máli af því að hann segir að þetta komi af trúleysisvefsíðu þegar staðreyndin er sú að síðan sem hann bendir þarna á er ekki trúleysisvefsíða heldur þvert á móti vefsíða sem kristnir menn halda úti.

  Ég hyggst skoða þetta mál um leið og ég hef tíma til, ég er of upptekinn í augnablikinu við annað, og ef það kemur í ljós að þetta var vitlaust þá leiðrétti ég það. Það skiptir í raun engu máli hvort að nákvæmlega þetta atriði sé rétt enda eru nóg önnur dæmi að taka af.

 8. Óli Gneisti ritaði:

  Ég ætla ekki að gera ráð fyrir að þetta sé rétt hjá Örvari enda bendir ekkert til þess að hann sé marktækur.

  Sem dæmi um það þá er þessi rangfærsla þarna um að ég hafi fengi upplýsingar mínar af trúleysisvefsíðu, hann las ekki einu sinni greinina sem hann vitnaði í.

  Síðan innihélt færsla Örvars um Passíusálmagagnrýnina á Vantrú það rugl að við værum að gagnrýna notkun á orðinu júði sem er alveg úr lausu lofti enda vitnaði greinarhöfundurinn til erinda úr Passíusálmunum sem innihéldu ekki orðið júði.

  Þetta gefur til kynna að Örvar sjái bara það sem hann vill sjá þegar hann er að lesa texta og þar af leiðir að ég get ekki annað en efast um að hann hafi upplýsingarnar á hreinu.

  Ég tek fram að ég leitaði að upplýsingum um að þessi klausa um Kristalsnóttina væri röng eftir að ég skrifaði greina en ég fann ekkert slíkt.

 9. Hafsteinn ritaði:

  Ég hyggst skoða þetta mál um leið og ég hef tíma til …

  Þetta er skrifað kl. 13:48 og ellefu mínútum síðar er engin þörf á því. Athyglisvert, en mér finnst betra að fá málefnaleg rök en ekki ad hominem í svona máli. Hlakka til að sjá niðurstöðuna.

 10. Örvar ritaði:

  Matti: Ég legg til að þið komið þeirra verkaskiptingu á að einhver annar úr hópnum lesi alltaf yfir greinarnar með krítískum augum. Eftirskrift mín vísar til þess að ég hef ekki tíma til að yfirfara allan vefinn fyrir ykkur. ;)

  Óli: Jú, ég tók eftir því að síðan sem þú vísaðir til sem heimildar var skrifuð af kristnum manni. Ég tók einnig eftir því að þessi tenging sem um ræðir virðist vera einhver mýta sem algeng er á vefjum um trúleysi. Ég benti á það í næstu setningu en hafði ekki hugsað það í tengslum við tilvitnunina á undan.

  Allar vefsíður eru hinsvegar hæpnar sem heimildir eins og þú hlýtur nú að vita Óli. Skipta þá trúarskoðanir höfundar engu máli. Á bókasöfnum er hægt að komast í ýmiskonar fræðibækur sem flestar eru ágætis heimildir.

 11. Matti Á. ritaði:

  Hafsteinn, skoðaðu umrædda færslu. Það hefur verið bætt við hana athugasemd.

  Örvar, Vantrú er ekki “peer review” vefur, þó það komi fyrir að við lesum yfir greinar hvors annars. Í þessu ákveðna tilviki hefur þú fundið eitt atriði sem þú telur rangt. Ýmsar heimildir benda til annars (ekki bara vefsíður). En greinin stendur hvort sem þetta atriði er með eða ekki.

  “Allar vefsíður eru hinsvegar hæpnar sem heimildir”

  Æi, erum við nú komnir út í að ekkert megi skrifa á vefinn nema vísað sé í frumheimildir (á prenti) ef eitthvað mark á að taka á því?

  Ýmsar fræðibækur eru vafasamur pappír og margur hefur lent í því að vitna í fræðibók sem inniheldur rangar upplýsingar.

  En mér þykir einkennilegt hve lítinn áhuga margir trúmenn hafa á einum virkasta vef landsins þar sem fjallað er um trúmál. Velti því stundum fyrir mér hvort menn séu að stinga hausnum í sandinn og vonast til að Vantrú (með stóru og litlu vaffi) sé ekki til.

 12. Óli Gneisti ritaði:

  Eru allar vefsíður lélegar heimildir? Ónei.

  Ef þú skoðar þær heimildir sem ég notaði einmitt við þessa grein þá eru þar Encyclopædia Britannica (vona að það sé nægilega traust) og vefsíður The Straight Dope (sem er þekktur dálkur í Chicago Tribune ef ég man rétt). Síðan er þessa kristna síða sem ég ákvað að treysta, ég bjóst ekki við að þeir hefðu nokkuð að græða við að endurtaka óstaðfestar sögur. Ég er búinn að skoða málið frekar og ég veit að þessi klausa um heiðrun Lúthers kemur fram í þónokkrum bókum þannig að netinu er ekki um að kenna.

 13. Örvar ritaði:

  hæpinn l. óviss, vafasamur; hættulegur [Orðabók menningasjóðs]

  Það er dálítið fyndið Óli að þú bendir á tvær prentheimildir því til stuðnings vefsíður séu ekki „lélegar“ heimildir. Þú hefur ekkert furðað þig á því að Britannica skyldi ekki nefna þessi tengsl við Lúter í umfjöllun sinni um Kristallnacht?

  Þetta veltur svo allt á því hversu alvarlega þið viljið að skrif ykkar séu tekin.

 14. Óli Gneisti ritaði:

  Ég var ekki að mótmæla því að vefsíðum skyldi taka með fyrirvara heldur alhæfingu þinni.

 15. Örvar ritaði:

  Ok, það þarf að leggja mat á þær hverju sinni allt eins og það þarf að leggja mat á bækurnar. Þó þarf bara að ýta á einn takka til að koma einhverju á vefinn, sama gildir ekki um bækur. Þess vegna eru vefsíður hæpnar sem heimildir að mínu mati. :)

 16. Örvar ritaði:

  Viðbót varðandi heimildir:

  The Hallgrímskirkja, a memorial church built in the poet’s honour at Saurbær, is one of the largest and finest churches in Iceland. [Britannica]

  Hallgrímskirkja Saurbæ er að vísu ágætis bygging en ekki meðal stærstu kirkjubygginga á landinu. Fyndið að rekast á þetta í framhaldi af umræðunni hér fyrir ofan. ;-)

 17. Matti Á. ritaði:

  Örvar, bentu mér á bók sem inniheldur ekki mistök.

 18. Örvar ritaði:

  Ég efast um að ég geti það. Af hverju ertu að biðja mig um það?

 19. Matti Á. ritaði:

  Vegna þess að þú dregur upp villu í Britannica, að því virðist til að draga úr gildi þeirrar vefsíðu sem áræðanlegrar heimildar.

 20. Örvar ritaði:

  Nei, mér fannst þetta bara fyndin tilviljun. Þegar ég tala um að leggja mat á heimildir þá á ég ekki við að telja villur heldur að skoða hvort viðkomandi verk sé faglega unnið, hvert sé markmið höfundar, hvar verkið sé birt, hvernig höfundurinn umgengst sínar eigin heimildir og einnig hvort aðrir hafi notað viðkomandi rit sem heimild.

 21. Binni ritaði:

  Hér á Britannica örugglega við Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti, en hún er óneitanlega stærsta og tilkomumesta kirkja á Íslandi. Hún var reist til heiðurs sálmaskáldinu, sem bjó að Saurbæ (kommusetningin í enska textanum sýnir þetta).

  Þetta breytir samt umræðunni ekki neitt.

 22. Matti Á. ritaði:

  Örvar, þú mátt ekki rugla saman fræðilegri umræðu, sem á sér stað í fræðitímaritum og almennri umræðu.

  Vantrú reynir að hafa rétt fyrir og við erum þakklátir fyrir allar leiðréttingar og ábendingar. En það er út í hött að ætlast til þess að allar greinar á Vantrú séu byggðar upp eins og fræðigreinar í virtum ritum. Það er einfaldlega ekki sá vettvangur sem Vantrú er á.

 23. Örvar ritaði:

  Já, Matti líklega er ég að ganga út frá því að umræðan ætti að vera fræðilegri.

  En mér þykir einkennilegt hve lítinn áhuga margir trúmenn hafa á einum virkasta vef landsins þar sem fjallað er um trúmál.

  Nú erum við búnir að finna eitt mögulegt svar við þessari spurningu þinni.

 24. Binni ritaði:

  Ekki vænti ég fræðilegrar umræðu á vantrúarnetinu. Það er eins og að fara í geitarhús að leita ullar. Ég held því meira að segja fram, að efni þessa vefjar sé hæpinn í almennri umræðu. Þetta er költ-efni sem ég held að afar fáum hugnist þegar upp er staðið.

 25. Matti Á. ritaði:

  Hefur enginn sagt Binna að…

  Æi, látum það eiga sig. Það sjá þetta allir, líka hann sjálfur.

  Verst hvað kunningjar hans eru latir við að benda honum á þetta, maður gæti fallið í sömu gildru og þeir og eignað þeim öllum hans eiginleika. Það væri illa gert.