15. mars 2004

Óli Gneisti benti mér á aðra grein á Vantrúarnetinu og átti hún að sannfæra mig um tengsl Lúters og nazista. Ég asnaðist auðvitað til að kíkja á hana. Sem fyrr þá eru vantrúarmenn ekki að vanda sig vinnubrögðin.

Greinin er í megindráttum léleg þýðing af þessari síðu: Nazi photos (sömu síðu er reyndar að finna á nokkrum stöðum á vefnum, sjá td. 1 og 2) - en þýðandinn hefur einnig bætt nokkrum myndum við.

Hér fylgja nánari útskýringar á af hverju myndirnar eru og tenglar á frekari upplýsingar. Skáletruðu tilvitnanirnar eru upprunalegi fylgitexti viðkomandi myndar.

Mynd1: „Guðspjallið, mynd af Lúter í sunnudagsútgáfu blaðsins ætluð kristnum Nasistum."

Vikublað „Hinna þýsku kristnu" (Deutchen Christen) sem var minnihlutahópur innan Þýsku mótmælendakirkjunnar (3þ. af 17þ. þjónum kirkjunnar tilheyrðu honum [ChurchRodent]). Hópurinn naut opinbers stuðnings Hitlers og Nazistaflokksins, en mætti andstöðu innan kirkjunnar.

Mynd 2: „Dæmigerður áróður kristinna Nasista þar sem Jesús var ekki talinn Gyðingur."

Der Stürmer - tímarit nazistans Julius Streicher innihélt iðulegar ógeðfeldar árasir á gyðinga (og stundum einnig pólitíska óvini Streichers) [sjá einnig Nazi Propaganda og Randall Bytwerk]. Steicher var meðal fyrstu meðlima nazistaflokksins og náinn vinur Hitlers. Streicher var enginn velviljamaður kirkjunnar.

Mynd 3: „Hefðbundin kristilegur nasistaáróður þar sem forfaðir Gyðinga er sagður sjálfur djöfullinn."

Nazistaáróður sem nýtir sér setningu í Jóhannesarguðspjall 8.43 þar sem Jesú er að ræða við faríseana og segir þá ekki geta verið af kyni Abrahams því þá myndu þeir þekkja sig, heldur séu þeir komnir af djöflinum þar sem þeir fari erinda hans. Tilvitnunin kemur einnig fyrir í bæklingi Lúters Um gyðingana og lygar þeirra. [Sjá einnig Eitursveppinn]

Mynd 4: „Guðfræðinemar heilsa Theophil Wurm biskup að nasistasið þegar hann yfirgefur kirkju í Stuttgart."

Theophil Wurm biskup var harður andstæðingur nazista [sjá Museum of Tolerance og Britannica]

Mynd 5: „Nasistar gera skriflegt samkomulag við Páfagarð."

Fulltrúar Páfagarðs og Þriðja ríkisins skrifa undir Reichskonkordat 20. júlí 1933 [Sjá Wikipedia].

Mynd 6: „Kristileg áróðursplaköt fyrir Hitler vegna kosningana 1933."

Veggspjöld ætluð katólikkum, bent á að ríkisstjórn hafi náð að semja við Páfagarð (Reichskonkordat) nokkuð sem stjórn Weimarlýðveldisins tókst ekki. Á veggspjaldinu er dagsetningin 12. nóvember sem stemmir ekki í sambandi við tenginguna við þingkosningarnar 1933. Einnig er talað um manntal (Volkabstimmung) á því. [Sjá 1933-39 Das Reichskonkordat].

Mynd 7: „Kristilega Meðhjálparablaðið þar sem Hitler er hylltur sem leiðtogi allra Þjóðverja."

Djáknablað. Mynd af Adolf Hitler kanslara Þýskalands og undir stendur „heill sé foringja allra þjóðverja".

Mynd 8: „Hér eru börn vöruð við Gyðingum sem þykjast vera kristnir."

Innfelda myndin (neðri) er kápumynd bókarinnar Eitursveppurinn. Áróðursrit sem nazistinn Streichter gaf út og ætlaði börnum. Efri myndin er af síðu 5 í bókinni þar sem varað er við því að þrátt fyrir að hafa tekið skírn þá hætti gyðingar ekki að vera gyðingar.

Mynd 11: „Hitler heilsar Muller biskupi þriðja ríkisins."

Hitler tekur í hendina á Ludwig Muller ríkisbiskupi sínum. Hjá stendur Alban Schachleitner ábóti sem einnig var meðlimur í Hinum Þýsku kristnu og góðvinur Hitlers [sjá Remarks by Konrad Heiden from Der Feuhrer].

Mynd 16: „Fjöldasamkoma Lúterskra nasista."

Fjöldasamkoma hjá Hinum þýsku kristnu (Deutchen Christen) 13. nóv. 1933.

Mynd 17: „Nasísk kirkjusamkoma"

Ludwig Muller meðlimur Hinna þýsku kristnu (Deutchen Christen) settur í embætti sem ríkisbiskup. Hitler þvingaði honum upp á Mótemælendakirkjuna [sjá Protestant Churches in the Third Reich].

Mynd 18: „Hitler eftir kristilega sunnudagsmessu."

Hitler gengur út úr kirkju í Wilhelmshaven. Greinilega ekki að lokinni messu, nema Hitler hafi hlaupið út fyrstur.

Mynd 21: „Hitler við kristilega gröf móður sinnar."

Þýskir hermenn votta móður kanslarans, Klöru Hitler virðingu sína við gröf hennar.

Mynd 22: „Kardináli í fylgd nasista."

Michael von Faulhaber kardináli og erkibiskup í Munich gengur á milli raða SA-hermanna í borginni. Hann var harður andstæðingur nazista og Hitlers. Hann lagði ríka áherslu á uppruna kristni í gyðingdómi. Hann einnig áttu hlut í því að bylting Hitlers í nóv. 1923 mistókst.

Mynd 24: „"Guð er með okkur" Merki hersveita Hitlers"

Beltissylgja almennra SA-hermanna. Í miðið er merki Þriðja ríkisins og á ytri hringinum eru orðin „guð fylgi okkur". Þessi orð höfðu verið meðal einkennisorða þýska hersins allt frá miðri 19. öld, ef ekki fyrr. Beltissylgjurnar sem notaðar voru í fyrri heimstyrjöldinni voru nákmæmlega eins nema í stað arnarins og hakakrossins var keisarakóróna [mynd].

Viðbót

Kveðjan sem lýst er sem að „nasískum sið" í fylgitextum marga myndanna var vissulega vinsæl meðal þjóðernis- og fasistaflokka í Evrópu og víðar. Kveðjan er fyrst tekin upp hjá fasistum í Ítalíu og sóttu þeir hana til Rómverja. Ef maður ræki svona út hendina nú til dags þá myndi það vissulega mynda ákveðin hugrenningartengsl við nazisma og helförina sem myndu vekja hörð viðbrögð flestra manna. Hinsvegar var kveðjan nokkuð almenn í Þriðja ríkinu og féllst ekki í henni samþykki á öfgakenndustu hugmyndum og aðgerðum nazista.35 ummæli við „“

 1. Matti Á. ritaði:

  Sem fyrr þá eru vantrúarmenn ekki að vanda sig.

  smásmygli.

 2. Örvar ritaði:

  Já, sannleikurinn virðist vera smámunir hjá ykkur.

 3. Matti Á. ritaði:

  og útúrsnúningar - þú ert á góðri braut.

 4. Hafsteinn ritaði:

  Þegar minnst er á smásmygli og útúrsnúninga þá kemur mér nú fyrst í hug annar vefur en þetta blogg Örvars. Annars finnst mér þetta síður en svo vera smásmygileg gagnrýni.

  Hann afhjúpar hvernig greinin eftir einn vantrúarsinnanna er í raun skrifuð sem áróðursgrein gegn Lúther og lútherskri kirkju. Og það þarf nú meira til að hrekja beinskeytta ásökun hans í ummælum #2 en útúrsúninga-útúrsnúning.

 5. Matti Á. ritaði:

  Þið eruð ótrúlegir.

  Hann finnur smáatriði í þýðingum og bendir á það sem betur mætti fara. Þökk sé honum.

  Ályktanir ykkar eru svo ekki í nokkru samræmi við þann tittlingaskít sem hann bendir á.

  Það liggur við að ég dragi þá ályktun að niðurstaðan hafi verið fyrirfram ákveðin - upptalningin réttlæting.

  Sem réttlæting dugar hún ekki.

 6. Hafsteinn ritaði:

  Það sem Örvar bendir á er að kastað hefur verið til hendinni við vinnslu þessarar greinar á vefnum ykkar og að hún virðist í raun vera léleg þýðing á annarri grein, án þess að getið sé heimilda. Undirliggjandi er að í framsetningu ykkar fær greinin á sig áróðursblæ. Það þarf svosem ekki að koma á óvart - hún stendur í samhengi áróðursgreina ykkar gegn kirkju og kristni almennt. Og sannast sagna finnst mér ásökun hans í ummælum #2 alveg standa, ekki aðeins í samhengi þessarar illa þýddu greinar heldur í samhengi vefsins ykkar almennt. Vantrúarvefurinn er áróðursvefur. Og slík skrif ganga sjaldnast út á einlæga sannleiksleit heldur fremur það að draga upp afbakaða mynd af andstæðingnum.

 7. Örvar ritaði:

  Titill greinarinnar er „Kristnir nasistar“ og tilgangur hennar af ykkar hálfu er augljós. Skiptir þá ykkur engu máli að hún er full af staðreyndavillum. Þetta er að minnsta kosti „sögueinföldun“, ansi nærri því að verða sögufölsun á köflum. Allt gert í nafni málstaðsins. En svona málflutningur og vinnubrögð rýra hann bara.

 8. Matti Á. ritaði:

  Voru nasistar ekki upp til hópa kristnir og tilheyrðu þeir ekki upp til hópa Lútherskrum söfnuðum?

  Vantrúarvefurinn er áróðursvefur.

  Það er www.kirkjan.is líka, deus ex cinema, annall.is og www.blogg.is/orvar/ ef menn vilja fara út í svona hártoganir.

 9. Örvar ritaði:

  Voru nasistar ekki upp til hópa kristnir og tilheyrðu þeir ekki upp til hópa Lútherskrum söfnuðum?

  Ef maður miðar við almenna þjóðverja á þessum tíma þá voru tilheyrðu c. 90% kristnum söfnuðum, þar af 2/3 mótmælendur.

 10. Hafsteinn ritaði:

  Það er mikill munur á jákvæðri framsetningu á tilteknum málstað (eins og má finna á vefjum kirkjunnar og Deus ex cinema) og neikvæðri framsetningu á málstað annars (eins og er mikið gert á vantrúarvefnum og eins og slagorð eða yfirskrift hans gefur reyndar til kynna).

 11. Matti Á. ritaði:

  Það er heilmikiðo um jákvæða framsetningu á tilteknum málstað á Vantrúarvefnum og að sama skapi mikið um neikvæða framsetningu á málstað annarra á til að mynda www.kirkjan.is - ef Deus ex cinema er lesin í réttu ljósi má þar líka finna slatta af neikvæðri framsetningu á málstað annars. Þ.e.a.s. lesin í svipuðum stíl og þið lesið Vantrúarvefinn.

 12. Örvar ritaði:

  Tökum eitt ákveðið dæmi úr greininni Matti og útskýrðu fyrir mér hvað ykkur gengur til með því. Faulhaber er kallaður nazisti þrátt fyrir að hann hafi lagt líf sitt og fjölskyldu sinnar í hættu með því að berjast gegn nazisma í aldarfjórðung.

 13. Þorkell ritaði:

  Matti segir: “Hann finnur smáatriði í þýðingum og bendir á það sem betur mætti fara. Þökk sé honum.”

  Ég vona bara að þið leiðréttið þetta þá sem fyrst á ykkar síðu!!! Þar væri það eina heiðarlega sem þið gætuð gert í stöðunni.

 14. Hafsteinn ritaði:

  Hver sem skoðar forsíðu vantrúarvefsins ykkar og umræðurnar sem þar fara fram og ber það saman við forsíðu og umræður á vef Deus ex cinema annars vegar og kirkjunnar hins vegar hann sjái fljótt hvað ég átti við með ummælum mínum hér að ofan.

  Það þarf ekki annað en að líta yfir vefina til að sjá hver raunin er - og engin þörf að lesa þá í sérstöku ljósi (hvorki Krists né annars).

  Það væri svo kannski fróðlegt að skoða áróður í gegnum söguna og bera saman og sjá á hvað vantrúarvefurinn minnir einna helst - hvaða gagnrýnendum kristni og kirkju þið líkist helst.

 15. Matti Á. ritaði:

  Það væri kannski við hæfi að koma þessari gagnrýni á framfæri á Vantrúarsíðunni - þar er opið fyrir athugasemdir. Síðast þegar Örvar benti á eitthvað sem honum fannst rangt var einmitt bætt við ahugasemd og minnst á að gagnrýni hefði komið fram. Örvar er varla yfir það hafinn að setja þessar athugasemdir á Vantrúarvefinn - eða hvað?

  Ég er ekkert viðkvæmur fyrir því að þetta sé kallað áróður. Þetta er rökstuddur áróður - ólíkt þeim heilaþvotti sem Kirkjan stendur fyrir í leik- og grunnskólum landsins. En þegar á slíkt er bent breytist áróður skyndilega í eitthvað allt annað.

  Lykilatriðið er þetta - fordómar ykkar gagnvart Vantrúarvefnum og vantrúuðum blinda ykkur sýn. Örvar finnur tittlingaskít og bendir á hann sigri hrósandi. Síðasta dæmi var gott, því þó atriðið sem Örvar benti á þar væri fjarlægt úr greininni myndi það ekki breyta henni svo nokkru nemi. Samt dæmir Örvar greinina ónýta útfrá smáatriði.

 16. Matti Á. ritaði:

  Þessi myndaflokkur sem Örvar gagnrýni nú er settur fram til að sýna tegnsl Nasista og Lútherskirkju í þýskalandi.

  Þið getið tuðað þar til þið verðið bláir í framan - en kjarni færslunnar stendur enn óhaggaður.

 17. Þorkell ritaði:

  Matti segir: “Þetta er rökstuddur áróður.” Ég hef ekki enn séð rökin fyrir því að Faulhaber hafi verið Nasisti!

  Og ef ykkur er annt um sannleikann þá á Örvar ekki að þurfa að eyða tíma í að færa allar þessar athugasemdir yfir á vef ykkar. Þið eigið að taka ábendingunum fagnandi og laga þetta hið fyrsta.

 18. Örvar ritaði:

  Örvar finnur tittlingaskít og bendir á hann sigri hrósandi. Síðasta dæmi var gott, því þó atriðið sem Örvar benti á þar væri fjarlægt úr greininni myndi það ekki breyta henni svo nokkru nemi. Samt dæmir Örvar greinina ónýta útfrá smáatriði.

  Ég bendi á um 20 atriði þar sem rangt er farið með staðreyndir eða ýjað að því að mynd sé af öðru en hún er í raun. Yrðu þau atriði fjarlægð væri ansi lítið eftir af greininni.

  Þessi myndaflokkur […] er settur fram til að sýna tegnsl Nasista og Lútherskirkju í þýskalandi.

  Af hverju hafið þið þá myndir með af kristnum mönnum sem ekki voru nazistar, hitt þó heldur og myndir af ritum nazistans Streichers sem ekki var kristinn …?

  Vissulega voru tengsl milli nazista og mótmælenda, allt eins og það voru tengsl milli nazista og trúleysingja, o.s.frv. Hvað fyndist þér um þann áróður að taka saman myndir af nazískum trúleysingjum og nota gegn trúleysi almennt?

 19. Matti Á. ritaði:

  Þorkell, ég var að svara þeirri fullyrðingu að Vantrú væri áróðursvefur. Í draumum ykkar er allt sem þar stendur órökstutt kjaftæði - en í raunveruleikanum er flest sem þar er skrifað rökstutt og vandað.

  Það er ótrúlegt að fylgjast með ykkur tína til einhvern tittlingaskít og sannfæra ykkur sjálfa um leið um að þarna standi ekki steinn yfir steini. Ég gæti að sama skapi tínt til innsláttar of stafsetningarvillur á þessari síðu og haldið því svo fram að Örvar kunni ekki íslensku.

 20. Hafsteinn ritaði:

  Mér finnast orð Matta um lykilatriðið alveg hreint frábær: Fordómar gagnvart vefnum og (van)trúuðum eru orsök blindu. Auðvitað berum við öll með okkur einhverja fordóma. Það gildir jafnt um trúaða sem trúlausa. Markmið samræðunnar ætti að vera að eyða slíkum fordómum - og það er vel hægt ef gengið er til hennar með opnum huga og meðvitund um eigin afstöðu.

  Annars held ég að það megi snúa ásökun hans upp á þá félagana. En það er einn grundvallarmunur. Trúarsinnarnir sem standa í samræðu við þá hafa ekki sett upp sérstakan vef til að viðra fordóma sína um trúlausa eins og þeir gera og ef um áróður er hægt að tala hjá þeim trúuðu sem standa í samræðu við hann þá er það áróður sem gengur út á að birta jákvæða mynd af þeim boðskap sem þeir standa fyrir, en ekki toga andstæðingana niður í svaðið. Á þessu er grundvallarmunur og á hann hef ég reynt að benda.

  Nenni samt ekki að standa í þessu hjali mikið lengur, enda hef ég sagt það sem ég vil og þarf að segja.

 21. Hafsteinn ritaði:

  Ps. Ég hef hvergi sagt að allt á vantrúarvefnum væri órökstutt kjaftæði og ekki hefur þessi vefur komið fyrir í draumum mínum heldur. Gagnrýnin snýst ekki um það.

 22. Matti Á. ritaði:

  þá er það áróður sem gengur út á að birta jákvæða mynd af þeim boðskap sem þeir standa fyrir

  “Það er til trúlaus maður og það er ekki gott.”

  “Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum; ótryggð og ótrú ógnar uppeldi barna okkar, sundrar heimilum og fjölskyldum. Valið stendur milli trúar og trúleysis á vettvangi hversdagsins, sem og viðskipta og stjórnmála. Ég er ekki í vafa um að flestir myndu að athuguðu máli velja trúna. Og viðurkenna að þegar allt kemur til alls sé einfaldlega ekkert vit í því að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni. Eða hvað?”

  Séra Karl Sigurbjörnsson Biskup Íslands

  En auðvitað er auðvelt að birtja jákvæðar myndir af einhverjum boðskap ef maður vílar ekki fyrir sér að segja ósatt.

  Örvar hefur íjað að því oftar en einu sinni að ekkert mark sé á Vantrú takandi og rökstutt með sparðartíningi.

  Þið eruð þrír sem hér karpið - ég nenni ekki að sundurliða hvert innlegg eftir því að hverjum það bein

 23. Hafsteinn ritaði:

  Þekki þessa tilvísun, þekki líka þær umræður sem hafa farið fram um hana.

 24. Örvar ritaði:

  Örvar hefur [ý]jað að því oftar en einu sinni að ekkert mark sé á Vantrú takandi og rökstutt með sparðartíningi.

  Huh? Ég hef lesið örfáar greinar á Vantrúarnetinu og aldrei tjáð mig um vefinn í heild. Heldur ekki sett út á boðskapinn. Ég hef skrifað um þrjár greinar. Fyrstu út frá misskilningi enda kom ekki í ljós við hvað greinin átti fyrr en í umræðunum sem komu í framhaldinu (nb. ég er samt ósammála). Hinar tvær vegna þess að Óli Gneisti benti á þær sem rök fyrir máli sínu.

  Ég skal hins vegar fúslega játa að ég hef sett út á vinnubrögðin hjá ykkur, enda sýndist mér full þörf á því. Í framhaldi af þessum færslum mínum hafa komið áhugaverðar umræður um eðli og tilgang vefsins Vantrú.net - og greinilegt að ég hef nálgast hann á röngum forsendum.

  Ps. Ef þið setjið ekki fleiri tengla á greinarnar ykkar í ummælin hjá mér þá hef ég ekki þörf fyrir að tjá mig þær.

 25. Matti Á. ritaði:

  Þegar menn gera stafsetningar eða innsláttarvillur í athugasemdum hjá mér hef ég beitt þeirri aðferð að lagfæra villuna. Mér þykir afskaplega hallærislegt að feitletra hana.

  Huh? Ég hef lesið örfáar greinar á Vantrúarnetinu og aldrei tjáð mig um vefinn í heild.

  Fyrirgefðu misskilninginn, orð þín hefur mátt skilja á annan veg.

  “Sem fyrr þá eru vantrúarmenn ekki að vanda sig.”

  “Ps. Ég ætla nú að biðjast undan því að lesa yfir fleiri greinar á vantrúarnetinu. Þessar tvær sem ég hef þegar lesið eru nóg, meira er ekki á mig leggjandi.”

 26. Örvar ritaði:

  Ég feitletraði ýjaði og rökstyðja samtenginguna hjá þér. Skil ekki hvernig hún á að ganga upp. Ég hef alveg látið vera að tala um stafsetningar og innsláttarvillur.

  Ég breyti ekki ummælum annarra hjá mér (bloggkerfið merkir við ummæli sem hefur verið breytt og þó ég láti það ekki í ljós í blogginu núna þá kynni ég að vilja gera það seinna).

  Ok, ég skal breyta þessu í „Sem fyrr þá eru vantrúarmenn ekki að vanda vinnubrögðin.“

  Og þrátt fyrir að ég hafi beðist undan því pent þá kom Óli inn í umræðuna með þessa grein sem hér er rætt um. Nú er ég aftur búinn að benda á það í eftirskriftinni hér fyrir ofan.

 27. Hjalti ritaði:

  Ég sé nú ekki að þessi Wurm hafi verið harður andstæðingur Nasista

  “At the time of the Nazi rise to power, Wurm supported the German Christians (Deutsche Christen), a faction that ” supported the Nazis (síðan sem að þú bentir á)

  Svo skil ég ekki hvað þú ert að segja með mynd númer tvö. Er þetta ekki „Dæmigerður áróður kristinna Nasista þar sem Jesús var ekki talinn Gyðingur.“ ?

 28. Örvar ritaði:

  Varðandi Wurm þá þarftu bara að halda áfram að lesa niður síðuna (og taktu eftir á hvers vegum hún er). Svo má finna meira um hann á Vefnum. Fyrir honum var „lausnin“ að skíra gyðingana en ekki lokalausn nazista. Hann hafnaði ofbeldinu og snerist gegn nazismanum. Það er nefnilega munur á „trúarlegum antísemítisma“ og rasískum antísemítisma.

  Varðandi #2 þá er ég að benda á að þetta er ekki glöggt dæmi (þ.e. dæmigert) um áróður kristins nazista. Fyrir Streicher var gyðingdómur og kristni alveg sama vitleysan. [Ég tók þessa setningu út því hún lýsir „fordómum“ hjá mér. Fyrir mér voru trúarbrögð nazista nefnilega ekki kristni.] Hann hélst í náðinni hjá Hitler með því að ráðast á gyðinga öfugt við kristni. Vittu að ég er ekki að segja að kristnir nazistar hafi ekki einnig haldið þessu sama fram.

  Eins og segir efst í færslunni þá er henni ætlað að útskýra af hverju myndir eru og vísa á frekari upplýsingar. „Ein mynd segir oft meira en þúsund orð“ - en ástandið í Þriðja ríkina var bara ekki svona augljóst.

 29. Hjalti ritaði:

  Gyðingar hafa varla verið í uppáhaldi hjá Wurm fyrst að hann var í kirkjudeild/kirkju/söfnuði sem að studdi nasistaflokkinn, er það?

  “Fyrir Streicher var gyðingdómur og kristni alveg sama vitleysan.”

  Það sem að ég hef fundið um hann núna finnst mér benda til þess að hann hafi trúað á Jesús en ekki guð gamla testamentisins. Endilega bentu okkur á hvar það kemur fram að hann hafi ekki verið kristinn.

 30. Hjalti ritaði:

  Í The death blow virðist hann vera á móti kærleiskboðskap kristinnar. En í Die Geheimpläne gegen Deutschland enthüllt í Der Stürmer segir hann þetta: Jesus Christ was such a spiritual hero. He fought against the Jews for his whole life. He spoke the most damning judgment ever made against this people. He said:

  “Your father is the Devil, and you want to carry out your father’s desire. He was a murderer from the beginning, for there is no truth in him. When he lies, he speaks his native language, for he is a liar and the father of lies.” (John 8:44-45)

  The Jews betrayed Christ. The committed a ritual murder on Golgotha. But Christianity developed, and if the Jew Paul had not twisted and falsified it, it would today be the greatest anti-Semitic movement in the world.

 31. Örvar ritaði:

  Wurm sagði skilið við Deutschen Christen 1933-1934 og gekk til liðs við andstæðuna: Bekennende Kirche. Fram að því hafði hann reyndar verið í Bundesparti - ekki nazistaflokknum.

  Hjalti, hvaða skilning leggur þú í orðasambandið „kristinn nazisti“? Er það kristinn maður sem er í nazistaflokknum eða einhverskonar ný tegund „kristni“ sem sleppir kærleiksboðskapinum, Páli, GT og öllu hinu sem ekki passar við nazismann? Ef svarið þitt er seinni kosturinn þá gæti textinn við mynd #2 gengið upp en þá er hinsvegar titill greinarinnar búinn að fjarlægjast sannleikann enn meira.

 32. Skúli ritaði:

  Takk fyrir góða grein og góð svör Örvar.

 33. Hjalti ritaði:

  Það var enginn að segja að hann hafi verið í Nasistaflokknum. Það hefur amk farið fram hjá mér.

  Hvað er þá eftir? Kannski Jesú Kristur. En ekki hef ég séð neinn nýlega taka boðskap Páls né GT alvarlega, amk ekki neinn þjóðkirkjumann. Var Streicher kannski bara kristinn en ekki “sannkristinn”?

 34. Örvar ritaði:

  Myndaflokkurinn ber yfirskriftina „KRISTNIR NASISTAR“. Matti (og Óli Gneisti) segir eftirfarandi um hann:

  Þessi myndaflokkur […] er settur fram til að sýna tegnsl Nasista og Lútherskirkju

  Segðu mér nú hvers vegna myndin af Wurm er þarna.

  Ég skal fúslega játa að það væri ákveðnir fordómar af mér að segja að Streicher hafi ekki verið kristinn. En það sem ég hef lesið um líf hans ber engin merki þess. Hin „nasíska kristni“ voru undarleg trúarbrögð ef svo skyldi kalli (tel þau frekar hafa verið áróðurstæki) þar sem kynþáttur, þjóð og foringinn voru í öndvegi.

 35. Örvar ritaði:

  Steicher var ógeðsleg padda sem var viðloðandi nazistaflokkinn frá upphafi. Hann var ekki áhrifamaður þar en Hitler hafði dálæti á honum. Eins og Hitler þá var Steicher alinn upp við katólskan sið. Hins vegar er engin tengsl að finna á milli Steicher, né blaðsins Der Stürmer og nokkurra kirkjudeilda í þýskalandi. Der Stürmer er dæmigert fyrir áróður nazista enda fylgir það áróðursfræðum þeirra og þenur þau í raun til hins ýtrasta. Höfundur fylgitextans skýtur hins vegar inn lýsingarorðinu kristinn og bið ég um rökstuðning fyrir því. Eða þá að hann setjið inn aðra heimild sem betra dæmi um þennan dæmigerða áróður kristinna nasista.

  Ef þið teljið forsíðumynd Der Stürmer nógu góðan málflutning hjá höfundi myndaflokksins þá hefði verið nóg að hafa bara eina mynd á síðunni. Mynd af Adolf Hitler og fylgitextann „Kristinn nazisti“.