16. janúar 2004

Í kennslustund í tal- og málmeinum í fyrradag barst talið að skilgreiningunni um hvað væri „gott mál". Ég held að ég sé eini málvísindaneminn í hópnum, bróðurhlutinn er úr íslensku og allir fyrir utan mig virtust sáttir við að gott mál væri það sem fylgdi hefðinni. Ég lét vera að koma með (eina) skilgreiningu málvísindanna um að gott mál væri það sem skildist þar sem tungumálið væri fyrst og fremst samskiptatæki (en auðvitað líka listaverk). Ég var reyndar hissa á að kennarinn skyldi ekki hafa komið með álíka skilgreiningu þar sem starf talmeinafræðings er að mestu leiti að hjálpa mönnum að gera sig skiljanlega.

Í framhaldi sagði kennarinn frá því að kunningakona hennar sem starfaði sem talmeinafræðingur í grunnskóla BNA hefði verið gagnrýnd af foreldrum annarra barna fyrir að reyna ekki að laga málfar barna sem töluðu svarta ensku. Svo tók hún sem dæmi um þá mállýsku setningu sem byrjaði svona: „there ain't none …". Ein bekkjarsystir mín furðaði sig mikið á þessu og spurði hvort þetta verið tvöföld neitun. Þá gat ég ekki setið á mér lengur og sagði „Það er ekki neitt að tvöfaldri neitun …"

Gjöreyðingarvopnin fundin?

11. janúar 2004

Mig dreymdi fáránlegan draum í morgunsárið. Íslendingar höfðu fundið gjöreyðingarvopn í Írak! Seinna þegar ég fór á fætur blasti sama fréttin við mér á forsíðu Fréttablaðsins. Fréttatími Bylgjunnar hefur líklega síast inn i draumaheim úr útvarpsvekjaraklukkunni. Ég verð samt að segja að mér þótti þessi frétt ansi ótrúleg - nærri draumi en raunveruleika.

Lesa restina af færslunni »

11. janúar 2004

Á vef Norræna hússins sá ég fyrir tilviljun tilkynningum um að samíska söngkonan Mari Boine verður í Salnum í Kópavogi 21. feb. nk. :) Ég má ekki láta þetta fram hjá mér fara.

3. janúar 2004

Ég sá loksins Nóa Albínóa í gærnótt og var mjög ánægður með hana. Mæli frekar með henni en tímasóun gærdagsins, LOTR3. Horfði einnig á aukaefnið á mynddiskinum, þar á meðal viðtal við Dag Kára um gerð myndarinnar. Í því talaði hann um hvernig hann reyndi að gera myndina tímalausa með vali á leikmunum. Fyrir utan nokkra hluti úr æsku hans svo sem galdrateninginn og Master-Mind spil. Hvernig átti maður þá að túlka Apple Powerbook tölvuna sem ætíð var á skrifborði skólastjórans?

LOTR: TROTR

2. janúar 2004

Ég sá þriðja hluta LOTR í dag. Ætla að eyða sem fæstum orðum í að fjalla um hann - bendi þess í stað á ágæta umsögn á Raskat. Þeim sem eiga eftir að sjá þessa kvikmynd er hollast að reyna að minnka væntingar sínar áður en þeir setjast inn í bíósal að berja hana augum. Ekki standa svo upp þegar þið haldið að myndin sé loksins búin, og ekki heldur næstu þrjú skipti, það er óþarfa viðbót í hvert sinn.

Ps. Voru þetta sömu draugarnir og í Ghostbusters. Sami græni geislavirki liturinn allavega.