Gróðafíkn Ísnic

5. apríl 2005

Loksins er einhver umræða komin í gang um skráning léna sem innihalda séríslenskra stafi og þar af leiðandi möguleika á "þjófnaði" léna. Þetta gerðist þó ekki fyrr en eftir að Hermann Páll Jónsson (Netvistun ehf.) vakti athygli á málinu með afgerandi hætti, sjá t.d. morgunblaðið.is. Að mínu mati er það einfaldlega gróðafíkn sem ræður ríkjum hjá Ísnic og fáránlegt að þeir reyni að fría sig allri ábyrgð.

"Við skráum lén á ábyrgð þess sem sækir um," sagði Helgi [Jónsson framkvæmastjóri Internets á Íslandi hf. (Ísnic)]. "Við erum ekki dómstóll eða neitt þvílíkt í svona málum." Hann sagði að umsækjendum léna væri bent á það í umsóknarferlinu að kanna vel hvort heiti lénsins, sem sótt væri um, væri líkt lénnafni sem þegar væri skráð. Hugsanlega gæti gengið gegn samkeppnislögum að sækja um slík lén. [Mbl.is, 4.4.2005]

Ég veit það af reynslu að svona kæra til Samkeppnisstofnunar er erfitt ferli sem tekur langan tíma að leysa. Auk þess er slík kæra eingöngu raunveruleg vörn til handa rekstraraðilum þar sem nauðsynlegt er að sýna fram á mögulegan (fjárhagslegan) skaða af völdum hugsanlegs ruglings á lénsheitum.

Ísnic væri sómu og hróður af því að leggja mismunandi rithætti léna eins og morgunbladid.is og morgunblaðið.is að jöfnu í stað þess að reyna að selja sem hvorttveggja sem óskyld lén (sama ætti þá við aðrar fræðilega mögulegar útgáfur af þessu lénsheiti ef þetta yrði gert sjálfvirkt, ss. mórgúnblaðíð.is o.s.frv.). Það er vel tæknilega útfæranlegt.

Ps. Skráið ykkur endilega á mótmælalista Netvistunar.

Pps. Ísnic er að vísu að fara sömu leið og skráningaraðilar annarra landa (sbr. td. nic.se).

Uppfærsla: 17. maí lækkaði Ísnic umrætt gjald um 90%.