RewriteEngine

12. apríl 2006

Ég ákvað að tengja undirlénin við bloggin í stað forsíðunnar í dag og skrifaði til þess nokkur mod_rewrite-skilyrði og reglur. Ég hef áður lítið þurft að nota þann módúl og varð því að lesa mér til. Enda illa séð ef maður er að fikta og valda "Internal Server Error"-villum á vef sem er á-línunni. Svo tekur það alltaf smá tíma að komast inn í stöðuvélaþankaganginn þegar maður er að semja reglulegar segðir. Eitt sem er ekki skýrt í leiðbeiningunum er að maður getur ekki endurritað lénsheitið heldur eingöngu beint á lénið (sem er vel skiljanlegt þegar maður hugsar út í það). Þetta gæti orðið ruglingslegt vegna þess að maður kemst upp með að rita lénsheiti í reglunum en svo eru þau bara hunsuð.

Eftir að hafa gert undirlénin virk þá bætti ég líke við mod_rewrite-reglum til að beina gömlu urlunum fyrir þau blogg sem eru virk á nýju undirlénin. En svo kom í ljós að nauðsynlegt var að yfirfara og laga skapalónin því ekki virtast allstaðar hafa verið notaðar réttar breytur og lénið stundum bara skrifað beint (þetta á sérstaklega við elstu skapalónin). Ég er að verða búinn að yfirfara þau skapalón sem eru í notkun.

Eftir flutninginn hefur furðu lítið komið upp á (sjö níu þrettán). Athugasemdir duttu út í smá tíma vegna villu í PHP eftir uppfærslu. Ég tel mig vera búinn að kippa því í liðinn, en ef ekki þá er alltaf hægt að "niðurfæra" aftur. Stærra vandamál var að ég uppgötvaði að læstar síður, færslur og flokkar var allt algerlega læst svo enginn kæmist inn. Ástæðan fyrir því reyndist vera sú að þegar PHP er keyrt sem CGI en ekki Apache-módúll þá hefur það ekki aðgang að innskráningarupplýsingunum. Mér tókst að leysa það með því að veita kerfinu aðgang að þeim upplýsingum (%{HTTP:Authorization}) með mod_rewrite-skipun. Ansi var nú heppilegt að hafa verið búinn að kynna sér það fyrr um daginn. :)Ein ummæli við „RewriteEngine“

  1. Árni Svanur ritaði:

    Nú þegar þú ert búinn að kynna þér mod_rewrite væri gaman að skoða hvernig við gætum notað það á vefjum kirkjunnar, t.d. til að losna við blessað spurningamerkið úr vefslóðunum okkar :)