Draumavélin

15. júní 2006

Mig dagdreymir um að kaupa Dell PowerEdge 2900. Ég myndi velja að taka hana með tveimur tveggja kjarna Intel Xeon 5060 3,2 gígariða örgjörvum með 1066 megariða brautarhraða, 2 gígabætum af minni (er að spara), tveimur 73 gígabæta SCSI-diskum sem ég myndi setja upp sem RAID1 og svo auka 160 gígabæta disk. Hjá Dell.no kostar hún þannig upp sett 21.639 NOK án virðisaukaskatts (sem gera um 260þ. ÍSK).

Til að byrja með myndi ég hafa hana heima svo ég gæti leikið mér aðeins en svo þyrfti ég að finna hýsingu fyrir hana. Úff hvað það væri gaman :)

Drekkt í auglýsingum

10. júní 2006

Sem Íslendingur sem býr erlendis þá reyni ég að fylgjast með íslensku miðlunum eftir bestu getu. Lengi vel var Mbl.is í uppáhaldi en undanfarið hef ég þó leitað annað af ýmsum ástæðum. Helsta ástæðan hefur þó verið sá hrikalegi fjöldi auglýsinga sem dynur á manni meðan maður reynir að lesa fréttastubbana. Því vakti frétt um Google töflureiknirinn frá því um daginn athygli mína — þó ekki fyrir fréttarefnið sem er þó athyglisvert útaf fyrir sig heldur eftirfarandi orð (feitletrun mín):

Þeir, sem nota vörur frá leitarrisanum, geta nú, auk þess að leita, skoðað heiminn með Google Earth, sótt tölvupóst, skipulagt sig með dagatali Google, þýtt texta, hannað vefsíður, skipulagt myndasafnið, bloggað og spjallað eða hringt.

Fleiri kostir eru reyndar í boði, en það merkilega er e.t.v. að allt ofantalið er ókeypis, án þess að notandanum sé drekkt í auglýsingum, og flest hægt að vinna í venjulegum vafra.

Er þarna að finna smá sjálfsgagnrýni — sérstaklega í ljósi þess að Mbl.is var að bæta við enn einum auglýsingarborðanum fyrir ofan hausinn á vefsíðunum sínum — eða er þetta bara nánast beinþýdd grein frá einhverjum erlendum miðli?

Ps. núna sæki ég mínar fréttir á Ruv.is — en sá fréttavefur hefur tekið þó nokkrum framförum undanfarið.

Sérstaklega athyglisverð heimildamynd frá Sony — en hálfljótur bíll! Maður venst þó útlitinu furðu fljótt.