Mannaferðir

27. nóvember 2006

Það er aldeilis mikið búið að vera um mannaferðir hjá mér í dag. Fyrst komu þrír menn að raka- og sveppafrjómæla íbúðina. Næst komu kona og karlmaður til að skipta um reykskynjara (og ég sem var nýbúinn að kaupa rafhlöður í þá gömlu) og síu í loftræstingunni. Svo kom einhver karl frá ríkisútvarpinu og yfirheyrði mig varðandi sjónvarpseign mína. Ég gat sem betur fer sýnt fram á það að ég væri vel skráður sjónvarpseigandi og væri í skilum hvað varðaði þessar c. 28þ. kr. sem leyfið kostar á ári. Í öllum látunum tókst mér þó að gleyma seinastu tölunni í kennitölunni minni (er vanari að slá hana inn en að þylja hana upp).

Á meðan þessum öllu stóð var efsta hugsun í kollinum á mér hversu mikið drasl væri í íbúðinni!

Ps. Næsta dag fann ég bréf í póstkassanum sem tilkynnt komu mannana til að mæla rakann og sveppafrjóið. Tekið var fram að íbúðin þyrfti að vera nýhreinsuð.

Frumskráning í Þjóðskrá

27. nóvember 2006

Í dag og gær hef ég verið að tjá mig í ummælum við færslu hjá Má Örlygssyni um trúfélagsskráningu í Þjóðskrá. Umræðan rifjaði upp fyrir mér hversu lélegur samskiptamáti samræður í ummælum eru í raun. Menn virðast alltaf lesa eitthvað meira eða annað í það sem maður skrifar. Kannski er það bara ég sem kann ekki að tjá mig almennilega.
Lesa restina af færslunni »

Af kæfu

27. nóvember 2006

Nú er ég byrjaður að safna kæfu (e. spam) því ég hef hug á að bæta kæfugreiningu á þeim bloggum sem ég hef umsjón með. Hingað til hef ég notað einfaldar handskrifaðar reglur og bannlista. Athygli vekur þó þegar maður fer að skoða þetta hversu vel einföldu reglurnar eru að virka. T.d. hafa þær seinustu 4 sólarhringa réttilega greint 374 kæfuummæli á Annál.is. Eingöngu 6 sluppu í gegn — sem er reyndar of hátt hlutfall þegar litið er til þess að alvöru ummæli voru bara 7 (sem er þó óvenju lágt fyrir þann vef). Nú er að sjá hvort ég geti bætt þetta eitthvað.

Uppfært 28/11:

Þrjár kæfur

Núna er kæfugreiningin orðin miðlæg og skipanirnar í WP til að merkja kæfu sem sleppur í gegn (og til að lagfæra ranglega greinda kæfu) hafa nú bein samskipti við það kerfi. Ég er að vísu ennþá að nota gömlu reglurnar við greininguna, að bæta þann hluta er þá næsta skref. Mig vantar bara meiri kæfu í sarpinn til að læra af.

Kortagerð í skjóli nætur

20. nóvember 2006

Til að aðstoða vinkonu sem skila átti og skilaði hovedoppgave kl. 14.00 í dag þá tók ég að mér að draga kort af tveimur biskupsdæmum. Annarsvegar Björgvinjarbiskupsdæmi í Noregi og hinsvegar Skálholtsbiskupsdæmi. Að góðri íslenskri venju var byrjað á verkefninu seinustu stundu eða um kl. níu í gærkveldi og afraksturinn var svo ekki klár fyrr en upp úr hádegi í dag.

Hörðafylki

Að ganga fjögur í nótt þótti ég mig góðan að vera búinn með Björgvinjarbiskupsdæmi en hafði misreiknað hversu stórt Skálholtsbiskupsdæmi var í raun. Upp á móti stærðinni vóg þó jafnari strandlína og þar af leiðandi fljótdregnari. Það verður að segjast að standlína Noregs er ansi vogskorin. Samt bættist ýmislegt annað við til að tefja fyrir svo sem mikill fjöldi áa.

Sunnlendingafjórðungur

Ég hef alltaf haft áhuga á kortagerð (auk annarra tegunda tækniteiknunar) og því var þetta ansi skemmtilegt viðfangsefni. Þrátt fyrir tímaþröng, vökunótt og sinaskeiðsbólgu. Ég er búinn að setja afrit af kortunum á flickr. Teikningarnar sjálfar eru þó vektorteikningar sem þola meiri þysjun en þær myndir gefa til kynna.

Mig langar að vinna meira með þessi kort og laga hluti sem ég varð að horfa framhjá í þetta sinn. Einnig langar mig að bæta við frekari upplýsingum ss. vísum að fjallendi.

Tetris

8. nóvember 2006

Heimildaþáttur frá BBC (56 mín.) um tölvuleikinn Tetris og höfund hans, Alexey Pazhitnov.