Frítt í strætó!

10. nóvember 2007

Það tekur því ekki að rukka inn það sem eftir stendur þegar búið að er að draga frá kostnað við innheimtu fargjalda í strætó. Þetta segir stjórnarformaður Strætó b.s. Þegar kostnaðurinn hafi verið dreginn frá, standi eftir hátt í 400 miljónir. [Rúv: Frítt í stætó fyrir alla?]

Loksins eru menn farnir að tala af einhverju viti um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef löngum verið á þeirri skoðun að það ætti einfaldlega að vera ókeypis í strætó og veit að margir eru sama sinnis. Það yrði ágætis búbót fyrir þá sem nota strætó mest — margir af nauðsyn. Einnig væri það fínn plús fyrir ferðamenn.

Þegar ég var á Íslandi fyrir nokkrum vikum þá var ég í vandræðum með að finna nóg klínk fyrir farinu — því ekki geta íslensku vagnstjórarnir gefið tilbaka eins og víða annarsstaðar. Mér leið svo hálf asnarlega þegar ég tæmdi fullan hnefa af mynt í baukinn í strætó. Fyrst hafði ég þó rekið mig á það að gamla strætóskýlið mitt var horfið, en þar næsta skýli hafði ekki verið fært langt, bara nokkur hundruð metra. Í stað gamla tvistsins var nú svo komin leið 14. Menn ætti að gera sér grein að frekara hringl með leiðarkerfið er ekki lausnin.

Svo þegar fleiri er byrjaðir að nýta sér ókeypis strætóferðir þá mætti fara að ræða um tíðari áætlanir. Strætó er ekki vænn kostur þegar hent getur að maður þurfi að standa í frosti og gaddi í meira en hálftíma að bíða eftir næsta vagni.Lokað er fyrir ummæli.