Nöfn og nefni

20. nóvember 2007

Ég rakst á eftirfarandi klausu í ummælum við færslu í bloggi í gær:

… ég kem þó fram undir nafni :P Ekki það að ég tel að Ella hafi gert það líka…ekki fullu nafni en kenninafni.

Litla málfarsfasisitanum sem blundar í mér langaði að koma með leiðréttingu á þessu en þar sem þetta snerti ekki upprunalegu færsluna (sem nóg var verið að blaðra um) þá taldi ég best að sleppa því. Einnig var hætta á að viðkomandi myndi taka ábendingu minni sem "persónulegri árás".

Málið er nefnilega að Ella er alls ekki kenninafn. Nema það sé til einhver ætt sem ber nafnið Ella og ég veit ekki um. Kenninöfn eru föðurnöfn og ættarnöfn (sbr. Gunnarsdóttir og Jensen). Þ.e.a.s. það sem venjulega kemur á eftir eiginnafninu.

Hvað er þá Ella? Það er einfaldlega gælunafn, nánar tiltekið stuttnefni ef við gerum ráð fyrir því að umrædd kona heiti Elín. Svo eru einnig til uppnefni og viðurnefni — um gælunöfn má lesa á vef Örnefnastofnunar.2 ummæli við „Nöfn og nefni“

  1. Ásgeir H ritaði:

    Er nú samt ekki alveg jafn líklegt að umrædd Ella sé einhver þeirra 83 sem bera þetta nafn í Þjóðskrá, meirihlutinn að fyrra nafni?

  2. Örvar svaraði:

    Jú, auðvitað. Ég hugaði ekki að þeim möguleika. En hann skiptir í raun ekki máli hér því þá er Ella eiginnafn og ekki kenninafn — og strangt til tekið væri það samt sem áður stuttnefni.