“Netorðin fimm”

19. janúar 2007

Netorðin fimmFull ástæða er að vekja athygli á auglýsingaherferð sem SAFT eru að hleypa af stokkunum og miðar að því að bæta samskipti á Netinu og vekja athygli á góðri netsiðferði.

Herferðin gengur út á fimm meginpunkta:

  1. Allt sem þú gerir á Netinu endurspeglar hver þú ert.
  2. Komdu fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig.
  3. Ekki taka þátt í neinu sem þú veist ekki hvað er.
  4. Mundu að efni sem þú setur á Netið er öllum opið, alltaf.
  5. Þú berð ábyrgð á því sem þú segir og gerir á Netinu.

Sjá nánar í frétt á vef SAFT og á síðu um herferðina.

Bíómynd og bók

12. janúar 2007

Fregnir af nýrri bók og bíómynd hafa vakið áhuga minn. Sameiginlegt eiga þær að skoða Þýskaland og seinni heimstyrjöldina í óvenjulegu ljósi. Bíómyndin heitir "Mein Führer - Die wirklich wahrste Wahrheit über Adolf Hitler" (imdb) sem mætti útleggja sem "Foringinn — hinn virkilega sanni sannleikurinn um Adolf Hitler" og var frumsýnd í Þýskalandi í gær. Í henni er gert stólpagrín að Hitler, nokkuð sem ég held að ekki hafi áður verið gert í þýskri bíómynd. Hægt er að skoða trailer Mein Führer á YouTube.

The Book ThiefBókin heitir The Book Thief og er eftir Markus Zusak. Kaldhæðin saga um munaðarlausa stúlku í Þýskalandi í seinni heimstyrjöldinni — sögumaðurinn er Dauðinn. Fjölda góðra ritdóma er að finna um hana á Vefnum og ég er nú þegar búinn að setja hana á pöntunarlistann minn hjá Amazon. Rótina að bókinni sagði Markus í viðtali á BBC vera sögur móður hans frá seinni heimstyrjöldinni í Þýskalandi og hvernig þær gáfu honum allt annað sjónarhorn á heim sögusviðsins. Til dæmis hvernig móðir hans var sett í hitlersæskuna en ákvað eftir fyrsta daginn, sem fól í sér endarlausar æfingar á gæsagangi, að skrópa framvegis.