Var honum stútað saggðirðu?

21. nóvember 2007

Þá er ég loksins búinn að sjá Mýrina og ég verð að segja eins og allir aðrir að ég er mjög ánægður með hana. Meðan ég horfði á hana velti ég þó fyrir mér hvort áhorfandi sem ekki væri búinn að lesa bókina næði að fylgja söguþræðinum nógu vel því hann var ansi hraður. En af dómum sem kvikmyndin fær hér í Noregi þá virðist það ekki hafa háð neinum.

Allir lofa myndina hér í hástert og hún er að fá hæstu einkunnar sem ég hef séð í kvikmyndaumfjöllunum. Það eina sem menn agnúast út í er að hér ber hún titilinn Jar City (sem er titill ensku þýðingar bókarinnar) í stað þess einfaldalega að vera kölluð Myren. Þar sem krukkuborgin spilar nánast ekkert hlutverk í kvikmyndinni þá er þessi gagnrýni vel skiljanleg — svo ætti Íslendingar auðvitað ekkert að vera að bjóða frændum sínum upp á engilsaxnesku þegar út í það er farið.

Guðmunda Eliasdóttir

Allur leikur var fínn. Ágústa Eva Erlendsdóttir kom skemmtilega á óvart sem Eva Lind og Ólafía Hrönn Jónsdóttir var fín í hlutverki Elínborgar. En einnig var gaman að sjá Guðmundu Elíasdóttur söngkonu í hlutverki Theódóru, gömlu konunnar á Grund. Sérstaklega var gaman að heyra bð- og gð- framburðinn hennar. Mig minnir að Björn Guðfinnsson hafi kallað hann lokhljóðaframburð. Til dæmis "Var honum stútað saggðirðu [saġðɩrðʏ]?" og "Æj, ég habði [haḅðɩ] mætur á honum þá hann libði [lɩḅðɩ]." Fínt að fá svona framburðardæmi fest á filmu.

Eftirfarandi voru lokaorð Erlends Loe rithöfunds og kvikmyndagagnrýnanda hjá Aftenbladet í umfjöllun hans um Mýrina:

Islendingene får det til. Det er som vanlig på nippet til å være irriterende. De er nesten ingen mennesker der borte og likevel er de langt kulere enn oss og jobber mye mer selvfølgelig over grensene og samarbeider med produsenter i mange land. Faen ta dem.

Nöfn og nefni

20. nóvember 2007

Ég rakst á eftirfarandi klausu í ummælum við færslu í bloggi í gær:

… ég kem þó fram undir nafni :P Ekki það að ég tel að Ella hafi gert það líka…ekki fullu nafni en kenninafni.

Litla málfarsfasisitanum sem blundar í mér langaði að koma með leiðréttingu á þessu en þar sem þetta snerti ekki upprunalegu færsluna (sem nóg var verið að blaðra um) þá taldi ég best að sleppa því. Einnig var hætta á að viðkomandi myndi taka ábendingu minni sem "persónulegri árás".

Málið er nefnilega að Ella er alls ekki kenninafn. Nema það sé til einhver ætt sem ber nafnið Ella og ég veit ekki um. Kenninöfn eru föðurnöfn og ættarnöfn (sbr. Gunnarsdóttir og Jensen). Þ.e.a.s. það sem venjulega kemur á eftir eiginnafninu.

Hvað er þá Ella? Það er einfaldlega gælunafn, nánar tiltekið stuttnefni ef við gerum ráð fyrir því að umrædd kona heiti Elín. Svo eru einnig til uppnefni og viðurnefni — um gælunöfn má lesa á vef Örnefnastofnunar.

Vandlátir rasistar

13. nóvember 2007

Þorkell hafði á endanum erindi sem erfiði og komst á lista yfir óvini Íslands. Það átti þó ekki að hleypa honum á listann þar sem hann er búsettur í Noregi! Óttarleg tröllatrú er þetta á Noregi.

Vísir.is hefur eitthvað fjallað um þessa ömurlegu síðu: Íslendingar í slagtogi við einn frægasta rasista Bandaríkjanna og Lögregla hefur fengið ábendingar vegna heimsíðu rasista.

Verðbólgan mælist nú 5,2% en væri 1,9% væri húsnæðisþátturinn undanskilinn. Síðustu þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,5% sem jafngildir 10,3% verðbólgu á heilu ári.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar um vísitölu neysluverðs í nóvember er það kostnaður vegna húsnæðis sem hleypir verðbólgunni upp. Ekki hvað síst aukinn vaxtakostnaður. [Rúv: Húsnæðisþáttur togar verðbólgu upp]

Húsnæðislánið er bundið vísitölu neysluverðs og hefur því hækkað vel seinustu misseri. Vísitalan neysluverðs er bundin húsnæðiskostnaði og hækkar þar af leiðandi vel líka. Semsagt hringavitleysa. Ég legg til að vaxtakostnaður húsnæðis verði tekinn út úr neysluvísutölunni hið fyrsta — þó það muni nú kannski ekki miklu.

Mæli annars með viðtali Silfur-Egils við Guðmund Ólafsson hagfræðing í gær þar sem þeir komu inn á þessi mál.

Frítt í strætó!

10. nóvember 2007

Það tekur því ekki að rukka inn það sem eftir stendur þegar búið að er að draga frá kostnað við innheimtu fargjalda í strætó. Þetta segir stjórnarformaður Strætó b.s. Þegar kostnaðurinn hafi verið dreginn frá, standi eftir hátt í 400 miljónir. [Rúv: Frítt í stætó fyrir alla?]

Loksins eru menn farnir að tala af einhverju viti um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef löngum verið á þeirri skoðun að það ætti einfaldlega að vera ókeypis í strætó og veit að margir eru sama sinnis. Það yrði ágætis búbót fyrir þá sem nota strætó mest — margir af nauðsyn. Einnig væri það fínn plús fyrir ferðamenn.

Þegar ég var á Íslandi fyrir nokkrum vikum þá var ég í vandræðum með að finna nóg klínk fyrir farinu — því ekki geta íslensku vagnstjórarnir gefið tilbaka eins og víða annarsstaðar. Mér leið svo hálf asnarlega þegar ég tæmdi fullan hnefa af mynt í baukinn í strætó. Fyrst hafði ég þó rekið mig á það að gamla strætóskýlið mitt var horfið, en þar næsta skýli hafði ekki verið fært langt, bara nokkur hundruð metra. Í stað gamla tvistsins var nú svo komin leið 14. Menn ætti að gera sér grein að frekara hringl með leiðarkerfið er ekki lausnin.

Svo þegar fleiri er byrjaðir að nýta sér ókeypis strætóferðir þá mætti fara að ræða um tíðari áætlanir. Strætó er ekki vænn kostur þegar hent getur að maður þurfi að standa í frosti og gaddi í meira en hálftíma að bíða eftir næsta vagni.