Gott mínútuverð

17. desember 2007

Fyrsta jólagjöfin sem ég verslaði í ár er loksins komin í hús. Ég pantaði hana frá Amazon í byrjun mánaðar — en jólasveinarnir hjá DHL sátu svo á henni í heila viku. Ég var ekki nógu snöggur til dyra þegar þeir komu með sendinguna á mánudaginn í seinustu viku. Þeir höfðu jú ekki fyrir því að ýta á bjölluna heldur límdu bara tilkynningu á hurðina og fóru.

Gjöfin er Babýlon 5 í heild sinni. Fimm ár af þáttaröðum, mínísería og sjö kvikmyndir. Samtals 42 dvd diskar eða 5.778 mín. að frátöldu aukaefni — á ansi góðu mínútuverði.

Babýlon 5

Bara ef það væri svona auðvelt að finna jólagjafir fyrir aðra en sjálfan mig :P

Fréttanöldur

16. desember 2007

Það gengur hálförðuglega að sækja fréttirnar á RÚV í kvöld. Ekki það að vefurinn sé ekki að virka sem skyldi heldur virðast sumar fréttirnar hálfkláraðar. Ég byrjaði á frétt um aldur íslensku tófunnar og las hana upphátt fyrir aðra. Tók þá eftir því í seinustu málsgreininni að ég var að endurtaka mig (mynd). Næst vakti athygli mína frétt um að Óbama væri auka fylgi sitt. Sú frétt reyndist ennþá vera í vinnslu og meirihluti hennar í stærra letri og það grænu í þokkabót (mynd).

Gefst upp á þessu og fer að sækja Vikulokin og Orð skulu standa. Í seinustu Vikulokum var Hallgrímur Thorsteinsson kominn í stað Önnu Kristínar Jónsdóttur. Samfara því var snið þáttarins orðið með allt öðrum hætti og eiginlega verra. Kannski var það bara vegna þess að þar mættu(st) tveir pólítíkusar sem fóru strax í vanalegar stellingar. Að auki var mest rætt um allt annað en undangengna viku. Nú er að sjá hvort þessi Vikulok séu með sama sniði.

Ps. Óttarlega er maður orðinn eitthvað gammall að helsta skemmtunin er Gufan — og maður nennir að nöldra svona.

Uppfært: Vikulokin voru áfram með nýja sniðinu en þó var þátturinn skárri en sá í seinustu viku. Hallgrímur er ágætur og þetta virðist ætla að verða ágætis fréttaskýringarþáttur á léttu nótunum — en þetta eru samt ekki gömlu góðu Vikulokin.