Kaupþing verði Esja?

17. desember 2008

Kann að verða að nafni Kaupþings verði breytt í Esja eða eitthvað myndað af því nafni?

ESJAREIS

SWIFT-kóðar nýju bankanna urðu NBIIISRE, ISBAISRE GLITISRE og svo ESJAISRE um daginn eftir að þeir hættu að nota kóða Seðlabankans. Landsbankinn tók upp heitið NBI sem hann átti í fórum sínum. Í dag var tilkynnt að Glitnir yrði aftur Íslandsbanki. Þá er að sjá hvaða heiti Kaupþing fær — er kannski ESJA í SWIFT-kóðanum vísbending?

Mér sýnist vera þörf á því að benda á að nöfn nýju bankanna á að rita með bandstriki skv. ritreglum. Þeir heita sem semsagt Nýi-Landsbanki, Nýi-Glitnir og umturnað Kaupþing mun heita Nýja-Kaupþing. Um þetta gilda sömu reglur og um Nýja-Garð, Norður-Ameríku og Valla-Ljót svo nokkur dæmi séu tekin.

Rýrnun fés

17. ágúst 2008

Tékkareikningar eru með c. 11% vöxtum en núna er 13,6% verðbólga sem fer hækkandi. Prósentumunurinn þýðir að fé manns rýrnar. Þegar ég athuga málið býðir bankinn ekki upp á neinn reikning með hærri ávöxtunarprósentu en nemur núverandi verðbólgu og þeim verðtryggðu reikningum sem bjóðast fylgir því sú kvöð að maður bindi féð í þrjú ár.

Þessa dagana borgar sig semsagt eiginlega ekki að geyma féð sitt í banka. Skást er líklegast að nota allt aukafé til að greiða inn á lán því verðbólgan leikur þau grátt. Það er eflaust besta "ávöxtunin" sem maður fær.

Ps. Glitnir spáir 14,8% verðbólgu í ágúst og svo meiri hækkun í september.

Fréttanöldur

16. desember 2007

Það gengur hálförðuglega að sækja fréttirnar á RÚV í kvöld. Ekki það að vefurinn sé ekki að virka sem skyldi heldur virðast sumar fréttirnar hálfkláraðar. Ég byrjaði á frétt um aldur íslensku tófunnar og las hana upphátt fyrir aðra. Tók þá eftir því í seinustu málsgreininni að ég var að endurtaka mig (mynd). Næst vakti athygli mína frétt um að Óbama væri auka fylgi sitt. Sú frétt reyndist ennþá vera í vinnslu og meirihluti hennar í stærra letri og það grænu í þokkabót (mynd).

Gefst upp á þessu og fer að sækja Vikulokin og Orð skulu standa. Í seinustu Vikulokum var Hallgrímur Thorsteinsson kominn í stað Önnu Kristínar Jónsdóttur. Samfara því var snið þáttarins orðið með allt öðrum hætti og eiginlega verra. Kannski var það bara vegna þess að þar mættu(st) tveir pólítíkusar sem fóru strax í vanalegar stellingar. Að auki var mest rætt um allt annað en undangengna viku. Nú er að sjá hvort þessi Vikulok séu með sama sniði.

Ps. Óttarlega er maður orðinn eitthvað gammall að helsta skemmtunin er Gufan — og maður nennir að nöldra svona.

Uppfært: Vikulokin voru áfram með nýja sniðinu en þó var þátturinn skárri en sá í seinustu viku. Hallgrímur er ágætur og þetta virðist ætla að verða ágætis fréttaskýringarþáttur á léttu nótunum — en þetta eru samt ekki gömlu góðu Vikulokin.

Vandlátir rasistar

13. nóvember 2007

Þorkell hafði á endanum erindi sem erfiði og komst á lista yfir óvini Íslands. Það átti þó ekki að hleypa honum á listann þar sem hann er búsettur í Noregi! Óttarleg tröllatrú er þetta á Noregi.

Vísir.is hefur eitthvað fjallað um þessa ömurlegu síðu: Íslendingar í slagtogi við einn frægasta rasista Bandaríkjanna og Lögregla hefur fengið ábendingar vegna heimsíðu rasista.

Verðbólgan mælist nú 5,2% en væri 1,9% væri húsnæðisþátturinn undanskilinn. Síðustu þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,5% sem jafngildir 10,3% verðbólgu á heilu ári.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar um vísitölu neysluverðs í nóvember er það kostnaður vegna húsnæðis sem hleypir verðbólgunni upp. Ekki hvað síst aukinn vaxtakostnaður. [Rúv: Húsnæðisþáttur togar verðbólgu upp]

Húsnæðislánið er bundið vísitölu neysluverðs og hefur því hækkað vel seinustu misseri. Vísitalan neysluverðs er bundin húsnæðiskostnaði og hækkar þar af leiðandi vel líka. Semsagt hringavitleysa. Ég legg til að vaxtakostnaður húsnæðis verði tekinn út úr neysluvísutölunni hið fyrsta — þó það muni nú kannski ekki miklu.

Mæli annars með viðtali Silfur-Egils við Guðmund Ólafsson hagfræðing í gær þar sem þeir komu inn á þessi mál.