Frítt í strætó!

10. nóvember 2007

Það tekur því ekki að rukka inn það sem eftir stendur þegar búið að er að draga frá kostnað við innheimtu fargjalda í strætó. Þetta segir stjórnarformaður Strætó b.s. Þegar kostnaðurinn hafi verið dreginn frá, standi eftir hátt í 400 miljónir. [Rúv: Frítt í stætó fyrir alla?]

Loksins eru menn farnir að tala af einhverju viti um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef löngum verið á þeirri skoðun að það ætti einfaldlega að vera ókeypis í strætó og veit að margir eru sama sinnis. Það yrði ágætis búbót fyrir þá sem nota strætó mest — margir af nauðsyn. Einnig væri það fínn plús fyrir ferðamenn.

Þegar ég var á Íslandi fyrir nokkrum vikum þá var ég í vandræðum með að finna nóg klínk fyrir farinu — því ekki geta íslensku vagnstjórarnir gefið tilbaka eins og víða annarsstaðar. Mér leið svo hálf asnarlega þegar ég tæmdi fullan hnefa af mynt í baukinn í strætó. Fyrst hafði ég þó rekið mig á það að gamla strætóskýlið mitt var horfið, en þar næsta skýli hafði ekki verið fært langt, bara nokkur hundruð metra. Í stað gamla tvistsins var nú svo komin leið 14. Menn ætti að gera sér grein að frekara hringl með leiðarkerfið er ekki lausnin.

Svo þegar fleiri er byrjaðir að nýta sér ókeypis strætóferðir þá mætti fara að ræða um tíðari áætlanir. Strætó er ekki vænn kostur þegar hent getur að maður þurfi að standa í frosti og gaddi í meira en hálftíma að bíða eftir næsta vagni.

11. ágúst 2007

Ah, I'd love to wear a rainbow every day,
And tell the world that everything's OK,
But I'll try to carry off a little darkness on my back,
'Till things are brighter, I'm the Man In Black
[Johnny Cash, Man in Black]

Hjúmakk?

7. júní 2007

Ég áttaði mig ekki á því alveg strax um hvaða fyrirtæki væri rætt í fréttum Stöðvar 2. Þulurinn sagði í sífellu hjúmakk! Ég hef ekki heyrt neinn bera humac fram öðruvísi en með íslenskum framburði áður. En fyrst fyrirtækið er komið í útrás til Norðurlanda og í meirihlutaeign Baugsmanns þá dugar víst ekkert nema enskur framburður, eða hvað?

Ps. í Noregi er verðlagning Humac hærri en hjá Eplehuset og apple.no, eins og hún var þegar verslunirnar hétu Officeline.

Norðmenn ætla að hjálpa íslendingum að halda sjálfstæðinu sínu — á friðartímum allavega:

Avtalen betyr i praksis at Norge hjelper Island med å hevde sin suverenitet. Men på norsk side er man samtidig svært nøye med å understreke at avtalen på ingen måte skal tolkes derhen at man gir sikkerhetsgarantier eller påtar seg noe ansvar for Islands forsvar [Aftenposten.no].

Norskir fjölmiðlar eru eitthvað að fara offari í umfjölluninni um þennan fyrirhugaða samning.
Uppfært: Mbl.is hefur nú fjallað um fréttina.

Stórt gengi útlaga sem herja á erlend olíufyrirtæki við ósa Nígerfljóts kallar sig Íslendingana eða Icelanders. Önnur nærtæk nöfn á gengjum svo sem Grænlendingar og Víkingar fyrirfinnast líka.

Það væri mjög fróðlegt að vita hvernig þessi nafngjöf kom til. Það verður að segjast að það er mjög undarlegt að heyra talað um og lesa um "íslendinga" í þessu samhengi í erlendum fjölmiðlum.

Sjá t.d. BBC News: The growing power of Nigeria's gangs og gúglið.

Drekkt í auglýsingum

10. júní 2006

Sem Íslendingur sem býr erlendis þá reyni ég að fylgjast með íslensku miðlunum eftir bestu getu. Lengi vel var Mbl.is í uppáhaldi en undanfarið hef ég þó leitað annað af ýmsum ástæðum. Helsta ástæðan hefur þó verið sá hrikalegi fjöldi auglýsinga sem dynur á manni meðan maður reynir að lesa fréttastubbana. Því vakti frétt um Google töflureiknirinn frá því um daginn athygli mína — þó ekki fyrir fréttarefnið sem er þó athyglisvert útaf fyrir sig heldur eftirfarandi orð (feitletrun mín):

Þeir, sem nota vörur frá leitarrisanum, geta nú, auk þess að leita, skoðað heiminn með Google Earth, sótt tölvupóst, skipulagt sig með dagatali Google, þýtt texta, hannað vefsíður, skipulagt myndasafnið, bloggað og spjallað eða hringt.

Fleiri kostir eru reyndar í boði, en það merkilega er e.t.v. að allt ofantalið er ókeypis, án þess að notandanum sé drekkt í auglýsingum, og flest hægt að vinna í venjulegum vafra.

Er þarna að finna smá sjálfsgagnrýni — sérstaklega í ljósi þess að Mbl.is var að bæta við enn einum auglýsingarborðanum fyrir ofan hausinn á vefsíðunum sínum — eða er þetta bara nánast beinþýdd grein frá einhverjum erlendum miðli?

Ps. núna sæki ég mínar fréttir á Ruv.is — en sá fréttavefur hefur tekið þó nokkrum framförum undanfarið.