Kaupþing verði Esja?

17. desember 2008

Kann að verða að nafni Kaupþings verði breytt í Esja eða eitthvað myndað af því nafni?

ESJAREIS

SWIFT-kóðar nýju bankanna urðu NBIIISRE, ISBAISRE GLITISRE og svo ESJAISRE um daginn eftir að þeir hættu að nota kóða Seðlabankans. Landsbankinn tók upp heitið NBI sem hann átti í fórum sínum. Í dag var tilkynnt að Glitnir yrði aftur Íslandsbanki. Þá er að sjá hvaða heiti Kaupþing fær — er kannski ESJA í SWIFT-kóðanum vísbending?

Rýrnun fés

17. ágúst 2008

Tékkareikningar eru með c. 11% vöxtum en núna er 13,6% verðbólga sem fer hækkandi. Prósentumunurinn þýðir að fé manns rýrnar. Þegar ég athuga málið býðir bankinn ekki upp á neinn reikning með hærri ávöxtunarprósentu en nemur núverandi verðbólgu og þeim verðtryggðu reikningum sem bjóðast fylgir því sú kvöð að maður bindi féð í þrjú ár.

Þessa dagana borgar sig semsagt eiginlega ekki að geyma féð sitt í banka. Skást er líklegast að nota allt aukafé til að greiða inn á lán því verðbólgan leikur þau grátt. Það er eflaust besta "ávöxtunin" sem maður fær.

Ps. Glitnir spáir 14,8% verðbólgu í ágúst og svo meiri hækkun í september.

Gott mínútuverð

17. desember 2007

Fyrsta jólagjöfin sem ég verslaði í ár er loksins komin í hús. Ég pantaði hana frá Amazon í byrjun mánaðar — en jólasveinarnir hjá DHL sátu svo á henni í heila viku. Ég var ekki nógu snöggur til dyra þegar þeir komu með sendinguna á mánudaginn í seinustu viku. Þeir höfðu jú ekki fyrir því að ýta á bjölluna heldur límdu bara tilkynningu á hurðina og fóru.

Gjöfin er Babýlon 5 í heild sinni. Fimm ár af þáttaröðum, mínísería og sjö kvikmyndir. Samtals 42 dvd diskar eða 5.778 mín. að frátöldu aukaefni — á ansi góðu mínútuverði.

Babýlon 5

Bara ef það væri svona auðvelt að finna jólagjafir fyrir aðra en sjálfan mig :P

Nöfn og nefni

20. nóvember 2007

Ég rakst á eftirfarandi klausu í ummælum við færslu í bloggi í gær:

… ég kem þó fram undir nafni :P Ekki það að ég tel að Ella hafi gert það líka…ekki fullu nafni en kenninafni.

Litla málfarsfasisitanum sem blundar í mér langaði að koma með leiðréttingu á þessu en þar sem þetta snerti ekki upprunalegu færsluna (sem nóg var verið að blaðra um) þá taldi ég best að sleppa því. Einnig var hætta á að viðkomandi myndi taka ábendingu minni sem "persónulegri árás".

Málið er nefnilega að Ella er alls ekki kenninafn. Nema það sé til einhver ætt sem ber nafnið Ella og ég veit ekki um. Kenninöfn eru föðurnöfn og ættarnöfn (sbr. Gunnarsdóttir og Jensen). Þ.e.a.s. það sem venjulega kemur á eftir eiginnafninu.

Hvað er þá Ella? Það er einfaldlega gælunafn, nánar tiltekið stuttnefni ef við gerum ráð fyrir því að umrædd kona heiti Elín. Svo eru einnig til uppnefni og viðurnefni — um gælunöfn má lesa á vef Örnefnastofnunar.

Vandlátir rasistar

13. nóvember 2007

Þorkell hafði á endanum erindi sem erfiði og komst á lista yfir óvini Íslands. Það átti þó ekki að hleypa honum á listann þar sem hann er búsettur í Noregi! Óttarleg tröllatrú er þetta á Noregi.

Vísir.is hefur eitthvað fjallað um þessa ömurlegu síðu: Íslendingar í slagtogi við einn frægasta rasista Bandaríkjanna og Lögregla hefur fengið ábendingar vegna heimsíðu rasista.

Ferðalag bókar

6. september 2007

Í dag kíkti ég reglulega inn á síðu hjá Amazon sem rak ferðalag bókar sem var á leið til mín. Í huganum dáðist ég að tækninni sem gerði þetta mögulegt. Allt þar til línan "Delivery attempted - recipient not home" blasti við sem lokapunktur ferðalagsins.

Recipient not home

Tæknin hafði brugðist mér í formi bilaðrar dyrabjöllu. Sendillinn hafði komið og farið með pakkann meðan ég reyndi að fylgjast með í vafraglugga í tölvunni í stað þess að kíkja bara út um gluggann.

Hjúmakk?

7. júní 2007

Ég áttaði mig ekki á því alveg strax um hvaða fyrirtæki væri rætt í fréttum Stöðvar 2. Þulurinn sagði í sífellu hjúmakk! Ég hef ekki heyrt neinn bera humac fram öðruvísi en með íslenskum framburði áður. En fyrst fyrirtækið er komið í útrás til Norðurlanda og í meirihlutaeign Baugsmanns þá dugar víst ekkert nema enskur framburður, eða hvað?

Ps. í Noregi er verðlagning Humac hærri en hjá Eplehuset og apple.no, eins og hún var þegar verslunirnar hétu Officeline.

Happadrættisvinningur

27. apríl 2007

Í nokkur ár hef ég keypt happadrættismiða í áskrift um hver mánaðarmót. Ég gerði þau mistök upphaflega að velja mér númer út frá afmælisdeginum mínum og get því alls ekki sagt upp ákriftinni. Auðvitað kæmi þá sá stóri um næstu mánaðarmót. Þegar ég byrjaði áskriftina þá hafði líka komið vinningur á númerið stuttu áður svo ég vissi að ég mátti bíða eitthvað eftir að það kæmi aftur að því (maður samsvarar slembifall við jafna dreifingu). Svo hafa liðið nokkur ár og ég athuga með vinning venjulega bara þegar ég er blankur.

Við seinustu athugun núna um daginn sá ég að það hafði loksins komið vinningur á númerið! Lægsta mögulega upphæð að vísu — en samt vinningur. Vinningurinn kom víst fyrir tveimur mánuðum og við nánari athugun kom í ljós að hann hafði verið greiddur inn á tékkareikninginnn minn. Vinningurinn hafði semsagt horfið þar án þess að ég hefði nokkuð orðið var við hann. :(

Núna er bara að bíða í nokkur ár í viðbót. Ég get að minnsta kosti huggað sjálfan mig við það að núna er ég aðeins minna í mínus út af þessum miðakaupum.

Í morgun þegar ég var að vekja krakkana og koma þeim í skólan spurði ég sex ára dóttur mína hvort hún vildi kornflex eins og bróðir sinn eða jógúrt í morgunmat. "Hvorugt", svaraði hún, "ég vil fá þennan morgunmat sem lætur mann passa í fötin sín." Með þessum orðum átti hún við Kellogs Special K.

Ég veit eiginlega ekki hvað mér á að finnast um þetta. Ég gerði mér enga grein fyrir að tíðar auglýsingar um hversu gott Special K morgunkornið væri fyrir línurnar gætu vakið athygli barns.