Fréttanöldur

16. desember 2007

Það gengur hálförðuglega að sækja fréttirnar á RÚV í kvöld. Ekki það að vefurinn sé ekki að virka sem skyldi heldur virðast sumar fréttirnar hálfkláraðar. Ég byrjaði á frétt um aldur íslensku tófunnar og las hana upphátt fyrir aðra. Tók þá eftir því í seinustu málsgreininni að ég var að endurtaka mig (mynd). Næst vakti athygli mína frétt um að Óbama væri auka fylgi sitt. Sú frétt reyndist ennþá vera í vinnslu og meirihluti hennar í stærra letri og það grænu í þokkabót (mynd).

Gefst upp á þessu og fer að sækja Vikulokin og Orð skulu standa. Í seinustu Vikulokum var Hallgrímur Thorsteinsson kominn í stað Önnu Kristínar Jónsdóttur. Samfara því var snið þáttarins orðið með allt öðrum hætti og eiginlega verra. Kannski var það bara vegna þess að þar mættu(st) tveir pólítíkusar sem fóru strax í vanalegar stellingar. Að auki var mest rætt um allt annað en undangengna viku. Nú er að sjá hvort þessi Vikulok séu með sama sniði.

Ps. Óttarlega er maður orðinn eitthvað gammall að helsta skemmtunin er Gufan — og maður nennir að nöldra svona.

Uppfært: Vikulokin voru áfram með nýja sniðinu en þó var þátturinn skárri en sá í seinustu viku. Hallgrímur er ágætur og þetta virðist ætla að verða ágætis fréttaskýringarþáttur á léttu nótunum — en þetta eru samt ekki gömlu góðu Vikulokin.

Nöfn og nefni

20. nóvember 2007

Ég rakst á eftirfarandi klausu í ummælum við færslu í bloggi í gær:

… ég kem þó fram undir nafni :P Ekki það að ég tel að Ella hafi gert það líka…ekki fullu nafni en kenninafni.

Litla málfarsfasisitanum sem blundar í mér langaði að koma með leiðréttingu á þessu en þar sem þetta snerti ekki upprunalegu færsluna (sem nóg var verið að blaðra um) þá taldi ég best að sleppa því. Einnig var hætta á að viðkomandi myndi taka ábendingu minni sem "persónulegri árás".

Málið er nefnilega að Ella er alls ekki kenninafn. Nema það sé til einhver ætt sem ber nafnið Ella og ég veit ekki um. Kenninöfn eru föðurnöfn og ættarnöfn (sbr. Gunnarsdóttir og Jensen). Þ.e.a.s. það sem venjulega kemur á eftir eiginnafninu.

Hvað er þá Ella? Það er einfaldlega gælunafn, nánar tiltekið stuttnefni ef við gerum ráð fyrir því að umrædd kona heiti Elín. Svo eru einnig til uppnefni og viðurnefni — um gælunöfn má lesa á vef Örnefnastofnunar.

Ég hnaut um eftirfarandi fyrirsögn fréttar á Mbl.is

Mannskæð bílsprengja sprakk í Bagdad

Hvernig getur bílsprengja verið mannskæð áður en hún springur?

http://mbl.is/mm/frettir/erlent/frett.html?nid=1194418

16. mars 2004

Hvað gerir hún Unnir viðskiptafræðinema þegar hún glatar gamla gemsanum sínum í Háskólanum? Nú auðvitað lætur hún lýsa eftir honum á Hi-nem póstlista allra 9.000 nemenda skólans. Garg! Vill einhver segja þeim sem sjá um þennan lista að hætta að hleypa ruslpósti inn á hann.

9. febrúar 2004

Af hverju kemur hringitónn á undan konuröddinni sem segir "númerið sem þú valdir er á tali"? Ætli maður geti hringt í þjónustuverið og beðið um gamla góða "á tali" sóninn?

Ps. Árni, ef þú lest þetta innan 5 mín. þá máttu gjarnan hringja í mig. Ég er orðinn leiður á konunni.

LOTR: TROTR

2. janúar 2004

Ég sá þriðja hluta LOTR í dag. Ætla að eyða sem fæstum orðum í að fjalla um hann - bendi þess í stað á ágæta umsögn á Raskat. Þeim sem eiga eftir að sjá þessa kvikmynd er hollast að reyna að minnka væntingar sínar áður en þeir setjast inn í bíósal að berja hana augum. Ekki standa svo upp þegar þið haldið að myndin sé loksins búin, og ekki heldur næstu þrjú skipti, það er óþarfa viðbót í hvert sinn.

Ps. Voru þetta sömu draugarnir og í Ghostbusters. Sami græni geislavirki liturinn allavega.

Af holum

15. desember 2003

Í gærmorgun var fundur Saddams aðalfréttin. Talsmenn bandaríkjamanna sögðu að hann hefði fundist falinn í spiderhole. Slíkar holur notuðu Viet-Kongliðar til að liggja í launsátri fyrir bandaríkjamönnum í Vietnamstríðinu (sjá mynd). En fyrirbærið er auðvitað nefnt eftir holum sumra tegunda köngulóa. Breskir fréttamenn á Sky News sjónvarpsstöðinni töluðu hins vegar um að hann hefði fundist í foxhole eða greni. Það orð má einnig finna í máli hermanna og er þá átt við gryfju sem notuð er sem skjól en er ekki beinlínis ætluð til að fela sig í.

Í fréttatíma Bylgjunnar (og Stöðvar 2) í framhaldi af blaðamannafundinum gær var fylgsni Saddams nefnt jarðhola (gamalt og svo sem ágætt orð) og í fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins í dag er það kallað neðanjarðarhola. Hefði ekki einfaldlega mátt tala um holu, eða hvað?

Herra Föt

5. desember 2003

Sá spjald í glugga verslunar í dag sem á stóð „Herra Föt". Hugsaðu með mér að þetta væri nú hálf asnalegt nafn á verslun - minnti dálítið á teiknimyndirnar um Smjattpattana Herramennina (Voru það ekki þeir sem hétu Hr. þetta og Hr. hitt.). Svo fattaði ég að þetta átti bara að vera „Herraföt" - þ.e. til merkis um hvað verslunin seldi.

29. nóvember 2003

Fréttablaðið í dag (bls. 39): „[K]ryddstúlkan Mel B [á] í ástarsambandi við unga konu…. Þær stöllur eru báðar 28 ára gamlar …". Afhverju er sérstaklega tekið fram að konan sé ung og við hvern er þá miðað?

Ps. Afhverju er ég að lesa svona aumar uppfyllingarfréttir og pæla í orðalagi þeirra?

Svokallað frétt

12. nóvember 2003

Mbl.is birti í dag frétt (lesist auglýsingu) um endurbættan vef Hafrannsóknarstofnunarinnar (afhverju ákv. gr.?). Moggamönnum þykir þessu vefur greinilega eitthvað merkilegri en aðrir sem þeir hafa auglýst því þetta birtist undir „innlent“ efni í stað flokksins „tölvur og tækni“.

Lesa restina af færslunni »