Enn má hafa not af Leit.is

21. október 2003

Tók eftir því að Leit.is er loksins búið að laga galla sem ég var að rausa um fyrir löngu. Gott hjá þeim - þá er bara næst að lagfæra þennan galla.

Langt er reyndar síðan ég hætti næstum alfarið að nota Leit.is - og ég verð steinhissa þegar ég rekst á fólk sem notar þá leitarvél en veit svo ekki hvað Google.com er. Hinsvegar má hafa enn hafa smá not af Leit.is - þ.e. til að athuga hvernig maður á að stafsetja orð. Segjum t.d. að þú vitir ekki hvort orðið leit sé með ypsiloni eða ekki - þá er hægt að leita að "leit leyt" og sjá hvort orðið er algengara:

Síður fundust: leit (60867) leyt (16)

Þetta kemur þó ekki alfarið í stað almennrar stafsetningarkunnáttu því aðferðin virkar bara svo fremi sem meirihlutinn kann enn stafsetningu. ;)

OZ?

19. október 2003

Hvað er að frétta af OZ? Allir sem ég kannaðist við og unnu þar eru löngu farnir eitthvað annað. Fyrirtækið var að flytja til Kanada seinast þegar maður heyrði einhverjar fréttir af því … og svo hvað? Nýjasta fréttin á vefnum þeirra er frá byrjun mars á þessu ári.

Gátu þeir ekki skilgreint sig upp á nýtt eða var kannski engin nýbóla til að grípa á lofti? Það hafa þó nokkur önnur fyrirtæki sprottið út úr OZ sem eru enn með lífsmarki.

Ps. fyndið, innan við viku eftir að ég skrifaði þessa færslu þá var reunion hjá fyrrum starfsmönnum OZ.

Auralaus þjóð

1. október 2003

Í dag urðu íslendingar að auralausri þjóð. Heimabankinn minn valdi hins vegar þá leið að núlla aurana frekar en að klippa þá einfaldlega aftan af öllum upphæðum. Fyrir vikið hefur fjöldi núllu þar þrefaldast ;) Svo gleymdi ég að fylgjast með hvort ég græddi eða tapaði nokkrum krónum á þessari breytingu.

Reyndar hefði ég alveg verið til í gengisfellingu með tilheyrandi veseni. Krónan fengi virði tíkalls o.s.frv (sbr. hin norðurlöndin) - eða heitir það þá kannski gengisupphalning. Þá hefðu aurarnir mátt vera áfram. Mér finnst eitthvað að gjaldeyri þar sem alls óvíst er að allir nenni að beygja sig eftir grunneiningu hans (krónu) þar sem hún liggur í götu.

Fjöltengi

21. september 2003

Mikið þykir mér leiðinlegt þegar fyrirtæki í hugmyndaleysi sínu taka eitthvað almennt orð og nota sem fyrirtækis- eða vöruheiti. Nýjasta dæmið er Fjöltengi Orkuveitu Reykjavíkur, og þar á undan var það líklega Talfrelsið hjá Tali (sem nú er orðið að Og Vodafone - annað dæmi um hugmyndaskort) sem svo varð auðvitað að Málfrelsi.

Dæmi eru um að svona lagað hafi verið til þess að almenna orðið glatist - ss. orðið kaupþing sem haft var um þá starfsemi sem fram fer í kauphöllum. Halda fyrirtækin að þau græði eitthvað á þessum tengingum við almenn hugtök?

31. ágúst 2003

SkothylkiðÍ morgun stökk ég bókstaflega á fætur. Hafði hugsað mér að taka því rólega, kannski lesa aðeins og hlusta á útvarpið … En þegar ég kveikti á náttborðslampanum þá heyrðist hvellur, eldglæringar stóðu út úr skerminum og peran skaust út á gólf. Og ég stökk á fætur og gargaði (karlmannlegt öskur nb.).

Hef tekið því rólega síðan. Eina sem ég hef gert af viti það sem af er deginum er að eyða út prufuummælum sem hann Vignir skildi eftir sig hér og þar á Annáli.is í nótt áður en hann skrifaði heila ritgerð sem ummæli við færslu hjá Þorkatli.

Ps. Vignir, ef þú skyldir lesa þetta, má ekki bjóða þér blogg á Blogg.is? ;)

Að skjóta húsdýr

20. ágúst 2003

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðamannaþjónustunnar líkir hvalveiðunum við það að skjóta húsdýr í Fréttablaðinu í dag (bls. 4):

Hvalirnir eru orðnir gæfir og vanir að láta horfa á sig. Það hefur ekki góð áhrif ef á að fara að skjóta þessi húsdýr sem við höfum komið okkur upp í Faxaflóa og á Skjálfandi.

Er ekki sé rétt að veiða hvalina þar sem þeir séu farnir að treysta mönnum og skipum? Hvað þá með öll hin dýrin sem bannað er að veiða hluta ársins og innan ákveðinna svæða - er þeim ekki einnig hætt við að fara að treysta mönnunum (sumir gefa þeim meira að segja brauð). Er bara rétt að veiða dýr sem hræðast menn.

Ég næ ekki hvað hún er að fara með húsdýrasamlíkingunni. Nú hafa íslendingar alla tíð drepið og étið húsdýrin - það er ein meginástæðan fyrir dýrahaldinu (að auki mjólkur-, ullar- og skinnafurða). Flest húsdýr enda jú í mögum manna.

Undarlegur útvarpssmekkur?

19. ágúst 2003

Ég hlusta alla jafna bara á tvær útvarpsstöðvar, þær eru Útvarp Saga og BBC World Service. Í dag (kl. 7 skv. Dr. Gunna) er endanlega út um að endurvarp BBC fái að halda áfram þegar Skonrokk hefur útsendingar á tíðninni 90,9. Og seinustu vikur hefur Útvarp Saga róið lífróður en virðist hafa fengið nýtt líf þegar starfsmenn þess tóku við rekstrinum. Báðir þessir kostir hafa verið í boði Norðurljósa en ekki verið nógu hagkvæmir til að réttlæta áframhaldandi rekstur fyrir þeim.

Ég spyr mig hvort „útvarpssmekkur" minn sé svona undarlegur? Hann virðist allavega ekki vera arðvænlegur hvað Norðurljós varðar. Vonandi græða þeir smá á að spila gamalt rokk og hefja endurvarp BBC á ný ;)

Eitt er þó snallt við þetta ráðslag - þ.e. að Skonrokk taki yfir tíðnina sem BBC hefur verið á. Tíðnin er örugglega nú þegar stillt inn á mörgum útvarpstækjum og ansi margir byrja líklega að hlusta fyrir slysni.

Ps. Enn má þó hlusta á BBC World Service á netinu - það bara hentar ekki alltaf enda bara tölva í öðru hvoru herbergi.

Hamborgaraveiðar

18. ágúst 2003

Í sárabætur handa öllum þeim sem finnst leitt að hafa ekki fengið að sjá myndir af hrefnunni sem veidd var í dag þá ákváð ég að birta hér eina mynd af hamborgaraveiðimanni fanga bráð sína.

Lesa restina af færslunni »

Menn … og konur

27. maí 2003

Stjúpdóttir mín spurði mig um daginn hvort að konur væru ekki líka menn. Jú, svaraði ég og spurði á móti hvað hún héldi að þær væru annars, kannski apar? Hún er vön svona útúrsnúning frá mér. Svo kom upp úr dúrnum að hún hafði lent í rifrildi við eldri stelpur í skólanum eftir að hafa haldið þessu fram - og fyrir vikið var hún kölluð ýmsum ljótum nöfnum.

Lesa restina af færslunni »

30 ára útskriftarafmæli

15. apríl 2003

Ég hef átt það til að gleyma því hversu gamall ég er og orðið að hugsa um mig um þegar ég hef verið spurður. Enda skiptir talan ekki svo miklu máli eftir tvítugsafmælið og aldurstakmarkanir eiga ekki lengur við mann. Hinsvegar hef ég verið nokkur viss um það að ég væri að verða 30 ára á þessu ári. Því varð ég hissa þegar ég las upphaf bréfs sem mér barst í morgun.

Ágæti samstúdent, …

Svo skrítið sem það hljómar þá eru 30 ár síðan þú útskrifaðist úr Verslunarskóla Íslands. …

Af þessu að dæma þá er ég að nálgast fimmtugt. :S

Ps. til hamingju með afmælið í dag Árni.