Var honum stútað saggðirðu?

21. nóvember 2007

Þá er ég loksins búinn að sjá Mýrina og ég verð að segja eins og allir aðrir að ég er mjög ánægður með hana. Meðan ég horfði á hana velti ég þó fyrir mér hvort áhorfandi sem ekki væri búinn að lesa bókina næði að fylgja söguþræðinum nógu vel því hann var ansi hraður. En af dómum sem kvikmyndin fær hér í Noregi þá virðist það ekki hafa háð neinum.

Allir lofa myndina hér í hástert og hún er að fá hæstu einkunnar sem ég hef séð í kvikmyndaumfjöllunum. Það eina sem menn agnúast út í er að hér ber hún titilinn Jar City (sem er titill ensku þýðingar bókarinnar) í stað þess einfaldalega að vera kölluð Myren. Þar sem krukkuborgin spilar nánast ekkert hlutverk í kvikmyndinni þá er þessi gagnrýni vel skiljanleg — svo ætti Íslendingar auðvitað ekkert að vera að bjóða frændum sínum upp á engilsaxnesku þegar út í það er farið.

Guðmunda Eliasdóttir

Allur leikur var fínn. Ágústa Eva Erlendsdóttir kom skemmtilega á óvart sem Eva Lind og Ólafía Hrönn Jónsdóttir var fín í hlutverki Elínborgar. En einnig var gaman að sjá Guðmundu Elíasdóttur söngkonu í hlutverki Theódóru, gömlu konunnar á Grund. Sérstaklega var gaman að heyra bð- og gð- framburðinn hennar. Mig minnir að Björn Guðfinnsson hafi kallað hann lokhljóðaframburð. Til dæmis "Var honum stútað saggðirðu [saġðɩrðʏ]?" og "Æj, ég habði [haḅðɩ] mætur á honum þá hann libði [lɩḅðɩ]." Fínt að fá svona framburðardæmi fest á filmu.

Eftirfarandi voru lokaorð Erlends Loe rithöfunds og kvikmyndagagnrýnanda hjá Aftenbladet í umfjöllun hans um Mýrina:

Islendingene får det til. Det er som vanlig på nippet til å være irriterende. De er nesten ingen mennesker der borte og likevel er de langt kulere enn oss og jobber mye mer selvfølgelig over grensene og samarbeider med produsenter i mange land. Faen ta dem.

LOTR: TROTR

2. janúar 2004

Ég sá þriðja hluta LOTR í dag. Ætla að eyða sem fæstum orðum í að fjalla um hann - bendi þess í stað á ágæta umsögn á Raskat. Þeim sem eiga eftir að sjá þessa kvikmynd er hollast að reyna að minnka væntingar sínar áður en þeir setjast inn í bíósal að berja hana augum. Ekki standa svo upp þegar þið haldið að myndin sé loksins búin, og ekki heldur næstu þrjú skipti, það er óþarfa viðbót í hvert sinn.

Ps. Voru þetta sömu draugarnir og í Ghostbusters. Sami græni geislavirki liturinn allavega.

Eitt atriði sem gerist undir lokin í Matrix: Reloaded hefur fengið þó nokkra athygli í vefheimum síðan myndin var frumsýnd. Í atriðinu er Trinity að brjótast inn í tölvukerfi hjá orkuveitu. Það sem er athyglivert er að aðferðin sem beitt er er trúverðug. Sjalgæft er að nokkuð sem við kemur tölvum sé sýnt í raunverulegu ljósi í kvikmyndum.

Lesa restina af færslunni »