Handlama

5. febrúar 2007

Lama en ekki handlamaEftir mikið tölvustand seinustu daga og vikur hef ég reynt að aftengja mig frá tölvunni seinasta sólarhring. [Innri rödd: Af hverju ertu þá að skrifa færslu í bloggið þitt?] Það hefur verið af illri nauðsyn enda nóg á verkaskránni sem kallar.

Sem tölvukarl er maður vanur sinaskeiðsbólgu og verkjum í höndunum. Ég man fyrst þegar ég var að fá sinaskeiðsbólgur rétt orðinn táningur að þá vart haft á orði við mig að það væri eitthvað sem aðeins plagaði miðaldra ritara.

Stundum þegar hendurnar eru slæmar þá finnur maður til eymsla í taugunum líka (kann ekki að lýsa þessu betur), sérstaklega í úlninni, olnbogabótinni og jafnvel upp í armkrika. En seinustu tvo daga hef ég ofan á þetta haft verk í þumli og löngutöng hægri handar og einskonar náladofa — þá hlustar maður loks á líkamann.1

Það sem dró mig að tölvunni var reyndar sú staðreynd að engar nýskráningar voru á Blogg.is um helgina. Að meðaltali eru 3 nýskráningar hvern dag þrátt fyrir kennitölutékk og aldurstakmörk.

...
2007-01-22 4
2007-01-23 2
2007-01-24 5
2007-01-25 3
2007-01-26 4
2007-01-27 1
2007-01-28 4
2007-01-29 2
2007-01-30 2
2007-01-31 4
2007-02-01 2
2007-02-02 2
2007-02-03 0
2007-02-04 0

2007-02-05 1

Ég þurfti að ganga úr skugga um að ekkert væri að og allt virkaði sem skyldi. Allt var í fína og fyrsta skráning þessa dags komin. Núlldagar hafa verið áður, ég myndi giska á með mánaðarmillibili, en aldrei tveir í röð.

Ég velti samt fyrir hvað hafi ollið þessu? Var eitthvað mikilvægt að gerast? Voru allir að með athyglina við handboltann? Eða er bara bloggmarkaðurinn að mettast — allir sem hafa áhuga á því að blogga komnir með blogg (og líklega fleiri en eitt)?

En nú sleppi ég höndum af lyklaborðinu.

Ps. Nýskráningar dagsins urðu svo fjórar.

  1. Mér verður einnig hugsað til píanókennara systur minnar sem var að stelast til að spila á píanóið nýbúinn til að vera í skurðaðgerð á báðum höndum til að laga álagskvilla.

“Netorðin fimm”

19. janúar 2007

Netorðin fimmFull ástæða er að vekja athygli á auglýsingaherferð sem SAFT eru að hleypa af stokkunum og miðar að því að bæta samskipti á Netinu og vekja athygli á góðri netsiðferði.

Herferðin gengur út á fimm meginpunkta:

  1. Allt sem þú gerir á Netinu endurspeglar hver þú ert.
  2. Komdu fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig.
  3. Ekki taka þátt í neinu sem þú veist ekki hvað er.
  4. Mundu að efni sem þú setur á Netið er öllum opið, alltaf.
  5. Þú berð ábyrgð á því sem þú segir og gerir á Netinu.

Sjá nánar í frétt á vef SAFT og á síðu um herferðina.

Bíómynd og bók

12. janúar 2007

Fregnir af nýrri bók og bíómynd hafa vakið áhuga minn. Sameiginlegt eiga þær að skoða Þýskaland og seinni heimstyrjöldina í óvenjulegu ljósi. Bíómyndin heitir "Mein Führer - Die wirklich wahrste Wahrheit über Adolf Hitler" (imdb) sem mætti útleggja sem "Foringinn — hinn virkilega sanni sannleikurinn um Adolf Hitler" og var frumsýnd í Þýskalandi í gær. Í henni er gert stólpagrín að Hitler, nokkuð sem ég held að ekki hafi áður verið gert í þýskri bíómynd. Hægt er að skoða trailer Mein Führer á YouTube.

The Book ThiefBókin heitir The Book Thief og er eftir Markus Zusak. Kaldhæðin saga um munaðarlausa stúlku í Þýskalandi í seinni heimstyrjöldinni — sögumaðurinn er Dauðinn. Fjölda góðra ritdóma er að finna um hana á Vefnum og ég er nú þegar búinn að setja hana á pöntunarlistann minn hjá Amazon. Rótina að bókinni sagði Markus í viðtali á BBC vera sögur móður hans frá seinni heimstyrjöldinni í Þýskalandi og hvernig þær gáfu honum allt annað sjónarhorn á heim sögusviðsins. Til dæmis hvernig móðir hans var sett í hitlersæskuna en ákvað eftir fyrsta daginn, sem fól í sér endarlausar æfingar á gæsagangi, að skrópa framvegis.

Dalalæða

21. desember 2006

Mynd af dalalæðu
Tekið út um stofugluggann um daginn

“Islandsk konglomerat”

3. desember 2006

Í blaði sem Office line búðirnar gefa út er Talk Now! Lær Islandsk pakkinn auglýstur svona:

Talk Now hulstur"Har selskapet du jobber for nettopp blitt kjøpt opp av ett Islandsk konglomerat med fremmed kultur og ikke minst ett fremmed språk? Lær å kommunisere med dine nye eiere med dette flotte kurser fra EuroTalk …"

Office line ber nú nafnið Humac og er komið í eigu Apple á Íslandi.

Mannaferðir

27. nóvember 2006

Það er aldeilis mikið búið að vera um mannaferðir hjá mér í dag. Fyrst komu þrír menn að raka- og sveppafrjómæla íbúðina. Næst komu kona og karlmaður til að skipta um reykskynjara (og ég sem var nýbúinn að kaupa rafhlöður í þá gömlu) og síu í loftræstingunni. Svo kom einhver karl frá ríkisútvarpinu og yfirheyrði mig varðandi sjónvarpseign mína. Ég gat sem betur fer sýnt fram á það að ég væri vel skráður sjónvarpseigandi og væri í skilum hvað varðaði þessar c. 28þ. kr. sem leyfið kostar á ári. Í öllum látunum tókst mér þó að gleyma seinastu tölunni í kennitölunni minni (er vanari að slá hana inn en að þylja hana upp).

Á meðan þessum öllu stóð var efsta hugsun í kollinum á mér hversu mikið drasl væri í íbúðinni!

Ps. Næsta dag fann ég bréf í póstkassanum sem tilkynnt komu mannana til að mæla rakann og sveppafrjóið. Tekið var fram að íbúðin þyrfti að vera nýhreinsuð.