Þetta blogg hefur aðallega að geyma pælingar, ábendingar um áhugaverðar síður, kvartanir og röfl um hvað það sem ég (Örvar) hef áhuga á eða læt mig varða.

Upphafið af þessu bloggi var ekki þörf mín fyrir að tjá mig heldur löngun mín til að skrifa kerfið sem býr að baki þess. Og voru fyrstu færslunar í raun bara til að athuga hvort ákveðnir fídusar virkuðu rétt. En nú sit ég upp með það og þið (þ.e. þeir sem kunna að villast inn á bloggið) með mig.

Um mig

Ég er 30 ára Reykvíkingur sem starfar við vefstjórn, kerfisstjórn, forritun og vefforritun (stikkorð: linux, apache, java, javascript, xhtml, css, xml, xslt, c/c++, mfc/win32, java, php … Ekki endilega í þessari röð og hér vantar einnig ýmislegt). Námsbakgrunnur minn eru málvísindi auk hluta af tölvunarfræði sem rann saman í meistaranámi í tungutækni (e. Language Technology). Ég á tvö börn; Sveinbjörn Hafstein (5 ára) og Þórunni Ebbu (3 ára).

Ps. hvolpurinn á myndinn hét Lágfóta - hún er með knúbb af stjúpu í kjaftunum enda nýbúin að tæta sig í gegnum blómabeð. Hún býr nú á Selfossi hjá nýjum eiganda og með nýtt nafn.

Um bloggið

Ég krefst þess að þeir sem tjái sig í ummælum við færslur í blogginu mínu séu tiltölulega málefnalegir og kurteisir. Fyrir mér eru ummælin leið fyrir fólk til að tjá sig um skrif mín - ég lít ekki á bloggið mitt sem einskonar kork þar sem menn geti endalaust rætt málin. Allt sem mér þykir óæskilegt sökum frávika frá þessu er í hættu að verða eytt eða yfirstrikað af mér.

Öll ummæli sem birt eru á síðunum er jú einnig þar í mínu nafni þrátt fyrir að aðrir skrifi sig fyrir þeim og því hef ég endanlegt vald hvað varðar það sem fær þar að standa. Ummælum frá fólki sem ekki gefur upp eiginnafn verður hiklaust eytt.

Stundum kann ég að kjósa að opna ekki fyrir ummæli við færslu og vil þá alls ekki fá ummæli varðandi hana við einhverja aðra færslu. Sjálfvirkt lokast fyrir frekari ummæli við færslur þegar ekkert nýtt hefur bæst við í tvo sólarhringa - stundum kann ég þó að loka fyrr en mér finnst viðkomandi umræða hafa hlaupið sitt skeið.